Borgin bannaði þátttöku herflugvéla

Um 7-10 þúsund manns lögðu leið sína á Flugsýninguna í …
Um 7-10 þúsund manns lögðu leið sína á Flugsýninguna í Reykjavík í dag, að sögn skipuleggjenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert varð af því að tvær ítalskar herflugvélar tækju þátt í Flugsýningunni í Reykjavík í dag, en Reykjavíkurborg beitti sér gegn því að herþoturnar, sem notaðar eru í loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins hér við land, fengju að vera með.

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir að búið hafi verið að samþykkja þátttöku herflugvélanna og vinna í málinu lengi, en á fimmtudag hafi borgin tilkynnt aðstandendum flugsýningarinnar að herflugvélarnar mættu ekki taka þátt í henni. Matthías segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa beitt sér sérstaklega í málinu.

„Það var vísað í gamalt samkomulag sem ekki hefur verið unnið stíft eftir,“ segir Matthías og vísar þar til samnings ríkisins og Reykjavíkurborgar sem gerður var árið 2013, en í því samkomulagi var kveðið á um að allri umferð herflugvéla og flugi í þágu hertengdrar starfsemi um Reykjavíkurflugvöll yrði hætt nema þegar völlurinn þjónaði sem varaflugvöllur eða vegna öryggis- og björgunarstarfa.

Síðasta sumar lýsti borgarstjóri því yfir að útskýra þyrfti af hverju gríðarlega hávaðasamar herflugvélar hefðu fengið leyfi til lágflugs yfir Vatnsmýri í tengslum við flugsýningu á vegum Flugmálafélagsins, svo ef til vill ætti bann borgarinnar nú ekki að koma á óvart.

Segir Reykjavíkurborg fjandsamlega flugi

„Það er spurning hvort þetta samkomulag sé hreinlega í gildi, borgin telur að það sé þannig en það er fullt af öðrum flugvélum sem hafa fengið að fljúga á Reykjavíkurflugvelli við aðrar kringumstæður sem hafa ekki verið stoppaðar. Okkur finnst sérkennilegt að þegar menn eru að gera sér glaðan dag og ætla að skemmta sér og dást að flugvélum og öflugri flugtækni skuli borgin beita sér gegn okkur. Við sjáum þetta bara sem fjandsamlegt flugi,“ segir Matthías, sem bætir við að þetta bann Reykjavíkurborgar vinni gegn flugi og áhuga nýrrar kynslóðar á að gerast flugmenn.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það vantar flugmenn í þennan geira til að manna störf og það er alveg grátlegt að á sama tíma skuli borgin vinna beinlínis gegn því að kveikja áhuga og byggja upp jákvæða ímynd fyrir flugið. Við erum bara verulega ósátt við þessa niðurstöðu. Í samkomulaginu segir að það megi ekki vera herflugvélar og ekki hertengd starfsemi og okkur finnst það skjóta skökku við að á sama tíma og þessu ákvæði er beitt gegn okkur séu leyfðar aðrar herflugvélar á Reykjavíkurflugvelli og hafnirnar hjá borginni séu meira og minna fullar af herskipum og hermönnum og það séu ekki gerðar athugasemdir við það,“ segir Matthías.

Fyrir utan þetta: flottur dagur

Að öðru leyti segir hann að flugsýning dagsins hafi verið frábær og gengið vonum framar miðað við veðurspána.

„Það voru allir mjög kátir og sáttir við þetta þó að það rigni akkúrat þessa stundina, það var fullt af skemmtilegum flugatriðum og fólk hefur fengið að skoða vélarnar úr miklu návígi,“ segir Matthías, sem gerir ráð fyrir að á bilinu 7-10 þúsund manns hafi lagt leið sína á Reykjavíkurflugvöll í dag til að taka þátt í flugveislunni.

Ljósmyndari mbl.is mætti á svæðið og tók meðfylgjandi myndir.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert