Rammasamningur ekki ásættanleg lausn

Svandís segir ljóst að rammasamningur í núverandi mynd sé ekki …
Svandís segir ljóst að rammasamningur í núverandi mynd sé ekki besta kerfið. mbl.is/Eggert

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir sérfræðilækna ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að þeir verði hafðir út undan við gerð nýrrar heilbrigðisstefnu, líkt og Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, sagðist hafa heyrt út undan sér í samtali við mbl.is í vikunni Þá segir ráðherra ekki rétt að ekki hafi verið rætt við sérfræðilækna um stöðuna og framtíð sérfræðilækninga á Íslandi. Nýlega hafi verið haldinn stór fundur og samtalið gengið vel.

„Þórarinn þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Læknafélag Íslands eða Læknafélag Reykjavíkur komi ekki að vinnu við gerð heilbrigðisstefnu. Það er áformað heilbrigðisþing í nóvemberbyrjun þar sem þeim verður boðið ásamt og heilbrigðisstofnunum og fleirum. Auðvitað verða þessir aðilar líka umsagnaraðilar að heilbrigðisstefnu. Það er ekki mín ætlun að gera stefnu sem er bara innanhússplagg,“ segir Svandís í samtali við mbl.is

Þórarinn sagði einnig að sérfræðilæknar væru uggandi yfir því hvað tæki við eftir að rammasamningur við Sjúkratryggingar Íslands rynni út um áramótin. Ekki hefði verið rætt við sérfræðilækna og þeir væru byrjaðir að undirbúa sig fyrir að starfa utan samnings eftir áramót.

Eftir því sem mbl.is kemst næst verða samningar þó ekki felldir úr gildi fyrr en nýjar lausnir taka við. Þannig verði hægt að framlengja samninginn um einn mánuð í einu þangað til búið er að semja um nýjar lausnir. Það sé því ekki hætta á því að allir sérfræðilæknar verði samningslausir um áramót og sjúklingar þeirra fái engar niðurgreiðslur.

Mögulega þarf mismunandi lausnir eftir greinum

Svandís segir það ekki rétt að ekki hafi verið talað við sérfræðilækna varðandi það hvað tekur við þegar samningurinn rennur út. „Við erum búin að halda einn fund sem var mjög góður. Við vorum fyrst og fremst að tala um stöðu sérfræðilækninga á Íslandi og hvernig þær muni þróast inn í framtíðina. Við stöndum svolítið á tímamótum með það hvernig við ætlum að haga þessu fyrirkomulagi til þess að ná utan um kerfið svo það verði heildstætt og gott og lipurt samstarf á milli sérfræðilækna sem eru sjálfstætt starfandi og svo heilsugæslunnar og spítalanna.“

Hún segir einn stóran fund hafa verið haldinn þar sem voru fulltrúar Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur, ásamt öðrum sem hafa haft sig mikið í frammi varðandi þessi mál. Á fundinum voru einnig þeir sem sjá um sérfræðilækningar á sjúkrahúsinu á Akureyri og Landspítalanum, fulltrúar frá Sjúkratryggingum Íslands og heilsugæslunni.

„Við vorum að fara yfir mismunandi aðgengi landsmanna eftir búsetu að mismunandi sérgreinum. Sumstaðar geturðu hitt augnlækni en þú getur ekki hitt gigtarlækni og sumstaðar geturðu hitt kvensjúkdómlækni en ekki húðsjúkdómalækni. Þetta þurfum við að ná betur utan um og það samtal gekk vel. Það eru auðvitað álitamál við borðið og fólk er ekki sammála um alla hluti,“ segir hún.

„Það sem ég er að láta gera í ráðuneytinu núna er að stilla upp þeirri stöðu sem komin er. Við þurfum mögulega að fara í mismunandi lausnir eftir sérgreinum. Líklega þurfum við að taka upp eitthvað í ætt við tilvísanakerfi,“ segir Svandís en fundað verður um það á allra næstu vikum. Tilvísanakerfi, líkt og hún nefnir, var tekið í notkun fyrir börn á aldrinum tveggja til 18 ára í maí á síðasta ári. Með tilvísun frá heimilis- eða heilsugæslulækni greiða börn á þessum aldri ekki gjald fyrir komu til sérfræðilæknis. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða 30 prósent af kostnaði við komuna.

Sérfræðingar ferðist um landið og hitti sjúklinga 

Aðspurð segir Svandís nauðsynlegt að gera töluverðar breytingar á kerfinu eins og það er í dag. „Við þurfum að minnsta kosti að horfast í augu við það að rammasamningur af þessu tagi verður ekki lausnin. Það er ekki ásættanlegt ef marka má ríkisendurskoðun og fleiri aðila. Að öllum líkindum þurfum við líka að horfa til laga um opinber innkaup, þar sem ríkið þarf að ákveða hvaða heilbrigðisþjónustu það ætlar að kaupa og bjóða síðan þá þjónustu út. Það er því ýmislegt í lagaumhverfinu og öðrum ábendingum sem við erum að vinna úr.“

Svandís segir mikilvægt að styrkja heildstætt kerfi þannig að sérfræðilæknaþjónusta verði aðgengileg fólki óháð búsetu. Að fólk þurfi ekki alltaf að fara suður til Reykjavíkur til að sækja þjónustuna. „Þess vegna höfum við talað um að mögulega þurfi Landspítalinn, sjúkrahúsið á Akureyri og aðrar heilbrigðisstofnanir að sinna sérfræðilækningum úti um land.“

Hugmyndin er þá að sérfræðingar í mismunandi greinum fari um landið og sinni sjúklingum eftir þörfum. „Þá þurfum við að vita hve þörfin er mikil og hvaða skipulag hentar best. Það er hægt að byrja þetta á einhverjum „pilot“-verkefnum með því að hugsa sér eina sérgrein og eina heilbrigðisstofnun og sjá hvernig það gengur. Að Landspítalinn sjái þá um að bakka upp tiltekna sérgrein í ákveðinn tíma úti um land. Þetta ástand sem er núna, að fólk þurfi alltaf að koma í bæinn til að hitta sérfræðinga, með tilheyrandi vinnutapi, ferðakostnaði og það þurfi að finna sér stað til að vera á, það er ekki jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“

Svandís segir einnig liggja fyrir að auka þurfi niðurgreiðslu á ferðakostnaði sjúklinga, enda muni flestir þurfa að koma einhvern tíma á Landspítalann og aðrar sjúkrastofnanir. „Við leysum þetta ekki með einni leið. Það þarf samsetta leið.“

Kerfi án oflækninga og óviðunandi biðlista

En hvernig sér hún fyrir sér að nýtt kerfi verði byggt upp?

„Það sem stefnt er að er að þjónusta sérfræðilækna verði partur af heildstæðu heilbrigðiskerfi þar sem þjónustan er veitt á réttum stað. Þar sem við búum ekki við óviðunandi biðlista og heldur ekki við oflækningar. Það er heildstætt kerfi sem tekur við af frekar brotakenndu kerfi sem við erum með núna. Nákvæmlega hvernig það lítur út, það veit ég ekki núna, en ég veit hvert við eigum að stefna og vonast til að sérfræðilæknar, eins og aðrar heilbrigðisstéttir, séu tilbúnir til þess að stefna þangað með okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert