Þriðjungur stúlkna hugleitt sjálfsvíg

Skýrsla embættisins byggir á gögnum úr sex könnunum sem lagðar …
Skýrsla embættisins byggir á gögnum úr sex könnunum sem lagðar hafa verið fyrir framhaldsskólanema frá aldamótum. mbl.is/Eggert

Um þriðjungur stelpna og hátt í fjórðungur drengja sem voru í framhaldsskóla árið 2016 höfðu í alvöru hugleitt sjálfsvíg, alls 2.834 ungmenni. Það sama ár höfðu 12% stelpna í framhaldsskólum landsins einhvern tímann gert tilraun til að svipta sig lífi.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu frá embætti landlæknis, sem beinir sjónum að sjálfsvígshugsunum, sjálfsvígstilraunum, sjálfsskaða og hugsunum um sjálfsskaða á meðal íslenskra framhaldsskólanema á árunum 2000-2016. Skýrslan byggist á gögnum úr könnunum sem lagðar voru fyrir framhaldsskólanema á árunum 2000, 2004, 2007, 2010, 2013 og 2016.

Á þessu tímabili hélst hlutfall drengja í framhaldsskólum sem sögðust hafa gert tilraunir til þess að svipta sig lífi á bilinu 5-7%, en hlutfallið rokkaði meira hjá stúlkunum og fór lægst í 7% árið 2010 en tók aftur að hækka til ársins 2016, er það var sem áður segir 12%, sem þýðir að nærri ein af hverjum átta stúlkum á framhaldsskólaaldri hafði einhvern tímann gert tilraun til að taka eigið líf.

Ýmsir forspárþættir skoðaðir

Árið 2016 höfðu 22% stúlkna hugsað um að skaða sig oftar en fimm sinnum yfir ævina og 13% stúlkna höfðu valdið sér sjálfsskaða. Þessar tölur hafa hækkað frá 2010, en fram kemur í skýrslunni að ungmenni sem höfðu skaðað sig einhvern tímann á ævinni voru 24% líklegri til þess að hafa gert tilraun til sjálfsvígs en ungmenni sem höfðu ekki valdið sér sjálfsskaða.

Um 10% ungmenna sögðust í könnuninni árið 2016 hafa átt góðan vin eða einhvern nákominn sem fallið hafði fyrir eigin hendi og 40% stelpna og 26% drengja sögðu að einhver nákominn þeim hefði gert tilraun til sjálfsvígs.

Sjálfsvígstilraun vinar eða einhvers nákomins er sterkasti sjálfstæði áhrifaþátturinn fyrir tilraun til sjálfsvígs, samkvæmt skýrslunni. Þar á eftir koma þættir á borð við þunglyndi, reiði, að hafa verið beittur kynferðisofbeldi og það að hafa reykt kannabis um ævina.

Sterkustu sjálfstæðu áhrifaþættirnir fyrir sjálfsvígshugsanir voru einkenni þunglyndis, reiði, það að einhver annar segði viðkomandi frá sjálfsvígshugsunum sínum, kynferðisofbeldi og lítill stuðningur foreldra, í þessari röð.

Ungmenni af erlendum uppruna, sem búa á heimilum þar sem er talað annað tungumál en íslenska eða íslenska í bland við annað tungumál, voru 1,6 sinnum líklegri til þess að hafa gert tilraun til að svipta sig lífi en ungmenni sem búa á heimilum þar sem eingöngu er töluð íslenska.

Þá eru ungmenni sem laðast að báðum kynjum 3,3 sinnum líklegri til þess að hafa gert tilraun til sjálfsvígs en þau sem einungis laðast að gagnstæðu kyni.  

Skýrsla embættis landlæknis um sjálfvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert