Hundar ómissandi í tækjabelti lögreglu

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir hundaþjálfari nemur nú efnaleit með hundum á …
Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir hundaþjálfari nemur nú efnaleit með hundum á vegum Frontex.Hér er hún með hundi sínum og námsfélaga Hanz. Ljósmynd/Aðsend

„Það er hægt að nota hunda til að rannsaka vettvang eftir kynferðisbrot, svo er líka hægt að nota þá við vopna- og sprengjuleit,“ segir hundaþjálfarinn Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir, sem þessi misserin er að nema efnaleit með hundum á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins.

Jóhanna er eini neminn frá Íslandi, en hún var í hópi 24 einstaklinga sem komust í gegnum undirbúningspróf í febrúar á þessu ári. Áður hafði hún setið undirbúningsnámskeið sem haldið var í október í fyrra.

„Það voru bara 24 efstu sem komust síðan að á námskeiðinu, en maður þarf að vera tilnefndur af einhverju embætti til að mega taka inntökuprófið,“ segir Jóhanna. Sjálf var hún tilnefnd af lögreglustjóranum á Suðurlandi, en Jóhanna er menntaður lögreglumaður og starfar hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi. Hún er líka menntaður hundaþjálfari frá Bandaríkjunum, (e. canine trainer and behaviour specialist) og stefnir á að opna einangrunarstöðina Mósel í nágrenni Hellu á næstunni.

Getur haldið námskeið fyrir lögreglu, her og landamæraverði

Jóhanna og Hanz við æfingar úti. Hún stefnir á að …
Jóhanna og Hanz við æfingar úti. Hún stefnir á að flytja hann heim til Íslands á næstunni. Ljósmynd/Aðsend

Að námi loknu verður Jóhanna komin með kennsluréttindi á vegum Frontex og getur þá tekið að sér að halda námskeið fyrir hundamenn í lögreglu, her og landamæravörslu. „Ég mun þá geta kennt í aðildarlöndum úti um alla Evrópu,“ útskýrir hún og svarar því játandi að hún muni líka geta haldið slík námskeið hér heima sé áhugi fyrir því.

Morgunblaðið greindi frá því í sumar að fíkniefnahundum hefði farið fækkandi hér á landi undanfarin ár og einungis fimm hundar væru nú starfandi. Skömmu síðar var greint frá því að nýr yfirhundaþjálfari fíkniefnahunda hefði verið ráðinn til starfa hér á landi og því gæti lögregluhundum farið að fjölga á ný. 

Hanzi og Jökull, sonur Jóhönnu við veiðar í Svíþjóð.
Hanzi og Jökull, sonur Jóhönnu við veiðar í Svíþjóð. Ljósmynd/Aðsend

Jóhanna segir hunda gagnast vel við lögreglustörf og kveðst vona að þeim fjari fjölgandi í lögreglunni hér á landi. „Það er til dæmis hægt að nota hunda til að rannsaka vettvang eftir kynferðisbrot. Það er hægt að nota þá við vopnaleit og svo við sprengjuleit líka, svo dæmi séu tekin,“ segir hún. „Hundar eru í raun ómissandi tæki í tækjabelti lögreglu og vonandi mun þeim fjölga svo um munar í framtíðinni.“

Námið hjá Frontex segir hún líka taka til þessara þátta – sprengjuleitar, fíkniefnaleitar, vopnaleitar og leitar að blóði og sæði. „Í rauninni er þetta bara efnafræði og efnin sem hundarnir geta leitað að,“ útskýrir hún, möguleikarnir séu því margir.

Markmið Frontex að auka samvinnu

„Það sem Frontex er að gera er að samræma úttektarreglur í Evrópu og á Schengen-svæðinu. Það er gert til þess að þegar kallað er í teymi sem hafa vottun sé alltaf vitað að hverju er gengið. Vitað sé hvað liggur að baki þjálfuninni og vitað um gæði hundanna sem staðist hafa próf. Það er líka markmið Frontex, að búa til aukna samvinnu í Evrópu og staðla þar um.“

Námið er kennt í lotum sem haldnar eru víðsvegar um Evrópu. „Ég hef til dæmis verið í náminu í Portúgal, Lettlandi og Póllandi,“ segir hún. „Ég ætlaði fyrst að vera hérna heima og mæta bara í loturnar, koma þá aðeins fyrr og vera aðeins lengur, en þetta reyndist síðan vera full vinna og rúmlega það. Ég tók þess vegna börnin og flutti til Svíþjóðar þar sem við vorum í sumar þar sem ég vann eingöngu við hundaþjálfun.“

Hundur á vegum Frontex að störfum. Anton segir hundateymin bæta …
Hundur á vegum Frontex að störfum. Anton segir hundateymin bæta starfið á öllum þeim stöðum sem þau eru send til. Ljósmynd/Aðsend

Á meðan vann maður Jóhönnu, Ingvar Guðmundsson, að uppsetningu Mósels sem þau vonast til að opna á næstunni.

Með Jóhönnu í náminu hefur verið rúmlega ársgamall schaefferhundur, Hanz, enda erfitt að æfa efnaleit með hundum án ferfætts félaga og stefnir hún á að flytja Hanz heim á næstunni. Jóhanna vann ekki með hundum í lögreglunni hér heima, en hefur tekið þátt í starfi björgunarhundasveita frá 2006. Þá hefur hún hefur verið með bæði schaeffer- og australian cattle dog-vinnuhunda hér heima.

Hún segir námið hjá Frontex hafa opnað augu sín. „Strax á fyrsta degi var talað um samvinnu og virðingu fyrir hvert öðru, ólíkri menningu, ólíkum trúarbrögðum og síðast en ekki síst virðingu fyrir hundinum.“ Námið hafi þannig e.t.v. orðið að svolítið heimspekilegri vegferð.

„Þarna lærum við auðmýkt gagnvart þekkingu og hvert öðru og að það sé ekki til bara einhver ein aðferð, heldur geti verið margar leiðir að sama markmiði og við þurfum að vinna saman og hjálpast að.“

Jóhanna kveðst líka hafa kynnst mörgum og eignast góða vini víða um Evrópu í gegnum námið. „Þetta hefur verið alveg ótrúlega mögnuð vegferð. Þetta hefur verið ofsalega erfitt og ofboðslega krefjandi, en ég er alveg rosalega þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.“

Getur gengið til liðs við ESB-teymið

Ljúki Jóhanna náminu hjá Frontex og standist prófin verður hún eini íslenski lögreglumaðurinn sem hefur hlotið kennsluréttindi sem Frontex-leiðbeinandi með hunda. Þetta segir Radu Constantin Anton, settur yfirmaður þjálfunardeildar Frontex.

Radu Constantin Anton, settur yfirmaður þjálfunardeildar Frontex - landa­mæra­stofn­un­ar Evr­ópu­sam­bands­ins. …
Radu Constantin Anton, settur yfirmaður þjálfunardeildar Frontex - landa­mæra­stofn­un­ar Evr­ópu­sam­bands­ins. Hann segir Frontex þjálfunina byggja á vísindum ekki hefðum. Ljósmynd/Aðsend

„Ef hún fær góða einkunn úr prófunum getur hún gengið til liðs við ESB-teymið og þá verður hægt að óska eftir henni til að þjálfa á Möltu, Grikklandi, Portúgal og öðrum ríkjum sem viðurkenna staðla Frontex og þörfina fyrir Frontex-þjálfunarteymi,“ segir Anton.

Jóhanna er þó ekki eini Íslendingurinn sem hefur útskrifast frá Frontex, því einn þjálfari lauk námi sem teymisstjóri fyrir tollgæsluna og þá er dæmi um að a.m.k. einn lögreglumaður hafi sótt hluta námskeiðs. Strangar einangrunarreglur hér á landi komu hins vegar í veg fyrir að hann gæti lokið náminu að sögn Antons.

Hundateymin bæta starfið alls staðar

Anton er sammála Jóhönnu um nytsemi hunda við löggæslu og segir þá gagnast mjög vel í störfum Frontex. „Svæðið sem þeir ná yfir fer stækkandi,” segir hann og kveður árangurinn af störfum þeirra mælanlegan.

„Við notum til að mynda hunda við landamærin í Grikklandi til að fylgjast með beitingu valds, erum með teymi með sporhunda á Spáni sem leita fólks sem hefur falið sig í bílum og síðan erum við með fíkniefnahunda sem eru sendir þangað sem þörf er fyrir þá. Alls staðar þar sem þau eru notuð bæta hundateymin starfið.“

Frontex starfar m.a. á landamærum Grikklands og þar geta hundarnir …
Frontex starfar m.a. á landamærum Grikklands og þar geta hundarnir gefist vel til að fylgjast með beitingu valds. Ljósmynd/Frontex

Þjálfunin sem Frontex býður upp á byggist á að mennta hundaþjálfara og veita þeim kennsluréttindi og þeir geta í framhaldinu þjálfað löggæsluaðila í sínu heimaríki samkvæmt stöðlum Frontex. Anton segir 40 manns hafa kennsluréttindi í dag. 10 þjálfarar hafa svo réttindi til að kenna á öllu ESB-svæðinu og fimm eru með réttindi matsmanna.

„Þeir sem hafa réttindi á ESB-stigi og matsmennirnir starfa nú þegar úti um allan heim. Þeir hafa til dæmis verið ráðnir af UNOPS, einni af þróunarstofnunum Sameinuðu þjóðanna, til starfa í Afríku og á öðrum svæðum,” segir Anton og kveður þetta vera til vitnis um fagmennsku og þjálfun Frontex.

Um 12 ár eru frá því hugmyndin að hundaþálfun Frontex vaknaði og þótt ríkjum Evrópu sé í sjálfsvald sett hvort að þau fylgi stöðlunum er það gert víða. M.a. hafa allir hundaþjálfarar sem starfa við löggæslu eða landamæravörslu á Möltu, Spáni, í Rúmeníu, Lettlandi, Svíþjóð, Noregi og Portúgal í dag hlotið þjálfun sem byggist á stöðlum Frontex.

Byggist á vísindum, ekki hefðum

Anton segir sveigjanleika kerfisins vera eina ástæðu þess að þjálfarar Frontex eru fengnir til starfa svo víða, en m.a. var óskað aðstoðar Frontex-hunda þegar hryðjuverkaárásin var gerð á tónleika bandarísku söngkonunnar Ariönnu Grande í Manchester á Englandi í fyrra.

„Með því eru þeir ekki tengdir hlutlægri skoðun eins stjórnanda, heldur kerfinu. Hætti stjórnandinn þá er kerfið enn til staðar og einhver annar lærir að fylgja þessum línum,“ útskýrir Anton og segir ástæðuna vera þá að kerfið byggist á vísindum, ekki hefðum eða einstaklingsbundnum staðhæfingum.

„Það hvetur til teymisvinnu og samstarfs. Þannig getur maður æft í einn mánuð og svo geta samstarfsfélagar manns strax tekið við og haldið vinnunni áfram, jafnvel þó að þeir komi frá öðru landi. Þetta er af því að við lítum á hundaþjálfunina sem vinnu en ekki arfleifð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert