„Líklegt að ég hefði aldrei komið heim“

Anna Björnsdóttir taugalæknir segist líklega ekki hafa tekið ákvörðun um …
Anna Björnsdóttir taugalæknir segist líklega ekki hafa tekið ákvörðun um að koma heim hefði hún vitað hvaða veggi hún myndi rekast á. mbl.is/​Hari

„Það hefur verið gríðarlegur skortur á taugalæknum alveg síðan í kreppunni og eðlilega hefur helst þurft að sinna bráðveikustu sjúklingunum, þeim sem liggja inni, en það hefur gert það að verkum að þessi sjúklingahópur hefur verið sveltur þjónustu svo árum skiptir. Og nú þegar loksins er möguleiki á því að bæta þjónustuna þá er viljinn ekki fyrir hendi.“ Þetta segir Anna Björnsdóttir, taugalæknir og sérfræðingur í parkinsonssjúkdómi og hreyfiröskunum.

Henni var neitað um samning við Sjúkratryggingar Íslands þegar hún sneri aftur til Íslands úr sérfræðinámi í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Anna opnaði engu að síður stofu hér á landi í vikunni en samningsleysið hefur þau áhrif að hennar sjúklingar fá þjónustuna ekki niðurgreidda, líkt og aðrir.

Árið 2016 var lokað fyrir nýliðun inn á rammasamning sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands, en síðustu læknarnir skiluðu sér inn á samning vorið 2017. Frá þessu hefur ekki verið hvikað þrátt fyrir mikinn skort á sérfræðilæknum í ákveðnum greinum, en læknum á samningi hefur fækkað um 50 talsins á síðustu tveimur árum. Biðlistar eru því víða langir og landlæknir hefur til að mynda metið stöðuna sem svo að að bið parkinsonssjúklinga eftir þjónustu sé óviðunandi, en margir hafa þurft að bíða mánuðum saman.

Örfáir læknar sérhæfðir í parkinsons

Mjög fáir taugalæknar með sérhæfingu í parkinsonssjúkdómnum eru starfandi hér á landi, að sögn Önnu. Þeir eru í raun teljandi á fingrum annarrar handar. Hún tiltekur þrjá lækna með svipaða menntun og hún. Einn þeirra er í barneignarfríi, en annar starfar á Landspítalanum. „Vandinn þar er að Landspítalinn sinnir aðallega þeim sjúklingum sem liggja inni á deildum og á meðan læknirinn þarf að sinna þeim sinnir hann ekki parkinsonssjúklingum utan sjúkrahússins.“

Til viðbótar eru starfandi nokkrir almennir taugalæknar og tveir læknar sem sérstaklega hafa sinnt parkinsonssjúklingum, en þeir eru báðir komnir á aldur og farnir að draga saman seglin, að sögn Önnu.

Það skyldi því engan undra að frá því að Anna opnaði stofuna sína í vikunni hafa henni borist yfir hundrað tilvísanir. Flestir sjúklinganna eru með parkinsons eða grun um parkinsons, en á Íslandi eru á milli 700 og 800 einstaklingar með súkdóminn. „Það er því ofboðslega mikil þörf fyrir þjónustu og hún er ekki fyrir hendi í þeim mæli sem þarf núna.“

Viðbrögð fólks við opnun stofunnar hafa verið mjög góð, að sögn Önnu, en gríðarleg vonbrigði á sama tíma. „Það eru gríðarleg vonbrigði að heimsóknir fólks sem búið er að bíða svo mánuðum skiptir eftir því að komast að hjá lækni séu ekki niðurgreiddar. Fólk skilur hvorki upp né niður í þessu. Þetta er flókið mál sem það nær ekki alveg utan um og skilur ekki af hverju þetta er ekki niðurgreitt eins og aðrar heimsóknir.“

Gagnast öllum að opna stofu í Reykjavík

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í viðtali í Kastljósi í vikunni að það hjálpaði ekki park­in­sons­sjúk­lingi á Þórs­höfn ef opnuð yrði ein stofa tauga­lækn­is í Reykja­vík. Hún lagði jafnramt áherslu á það í máli sínu að mikilvægt væri að hafa heildarsýn og styrkja heilsugæsluna um allt land, sem væri fyrsti viðkomustaður sjúklinga, þegar hún var innt eftir skýringum á því af hverju Önnu hefði ekki verið hleypt inn á samning þar sem fyrir lægi að þörf fyrir nýliðun í greininni væri mikil. Svandís sagði málið snúast um að að op­in­bera heil­brigðis­kerfið hefði glímt við fjár­skort und­an­far­in ár á meðan samn­ing­ar við sér­fræðilækna hefðu verið eins og „op­inn krani“ fjár­veit­inga.

Anna segir afstaða ráðherra lýsa innsæisleysi í vanda sjúklinga.
Anna segir afstaða ráðherra lýsa innsæisleysi í vanda sjúklinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna gefur lítið fyrir þau rök ráðherra að það að opna stofu í Reykjavík gagnist ekki sjúklingi á Raufarhöfn. „Ég vísa því algjörlega á bug, vegna þess að það gagnast öllum parkinsonssjúklingum, alls staðar á landinu, að hafa aðgang að sérhæfðum taugalækni sem er sérfræðingur í þeirra sjúkdómi. Þeir eru nú þegar farnir að koma til mín á stofu, alls staðar af á landinu,“ segir Anna.

„Það lýsir miklu innsæisleysi í vanda þessa fólks að halda að það sé hægt að sinna þessum sjúklingum á heilsugæslum úti á landi. Sjúklingarnir þurfa flóknari og meiri þekkingu en er hægt að veita þeim á litlum heilsugæslum úti á landi,“ bætir hún við.

„Þeim ber skylda til að veita þessa þjónustu“

„Hún hefur mikið talað um að hún sé að hugsa einhverja stefnu en það kemur mér og mínum sjúklingum ekki svo mikið við akkúrat núna. Á meðan hún er að hugsa þessa stefnu bíða hundruð sjúklinga eftir þjónustu. Það þarf að veita þeim þjónustu á meðan hún er að hugsa sína stefnu.“ Anna segir sína sjúklinga, og aðra parkinsonssjúklinga, ekki þola neina bið. Þeir þurfi á þjónustunni að halda núna.

Ráðherra sagði jafnframt í Kastljósviðtalinu að ekki væri hægt að snúa upp á íslenskt heilbrigðiskerfi í kringum einn heilbrigðisstarfsmann eða eina sérgrein og Anna er sammála því. „Stefnumótun í heilbrigðiskerfinu ætti ekki að snúast um einn lækni eða eina sérgrein, en þegar þörfin er jafn mikil og raun ber vitni fyrir eina sérgrein þá ber henni og ráðamönnum skylda til þess að bregðast við þeirri þörf. Landlæknir er búinn að skera úr um að biðin er óviðunandi. Þeim ber skylda til að veita þessa þjónustu þar til ríkisstjórnin er búin að finna út hvernig heildarstefna getur breytt þessu til betri vegar.“

Situr samningslaus við sama borð og aðrir um áramót

Líkt og fram hefur komið rennur rammasamningur Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna út um áramótin, en ekki liggur fyrir hvað tekur við. Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að sérfræðilæknar hefðu í sumar byrjað að undirbúa sig fyrir að starfa utan samnings eftir áramótin, enda hefði ekki verið rætt við þá um nýja samninga.

Anna gerir ráð fyrir því að um áramótin muni hún því sitja við sama borð og aðrir sérfræðilæknar sem allir verði samningslausir. „Þá verður ekkert okkar á samningi og þá er það ráðamanna að leysa hvernig þeir greiða þjónustu til sérfræðilækna.“

„Verra en ég nokkurn tíma gat ímyndað mér“

Það hvarflaði ekki að Önnu þegar hún fyrst ákvað að snúa aftur heim til Íslands og láta reyna á að fá samning við Sjúkratryggingar Íslands að niðurstaðan yrði sú sem hún er í dag. Að hún þyrfti að opna stofu þar sem sjúklingar ættu ekki rétt á neinni niðurgreiðslu vegna þjónustunnar. „Þetta er verra en ég nokkurn tíma gat ímyndað mér,“ segir Anna sem trúði því að vegna þess hve þörfin fyrir taugalækna hér á landi væri mikil yrðu gerðar einhverjar ráðstafanir.

„Landlæknir gerði skýrslu um málið og ég gerði ráð fyrir því að heilbrigðisráðuneytið myndi bregðast við henni. Eðlilegast væri að taka mig inn á samning vegna þess það er þörf á þjónustunni. Svo sendi ég fyrirspurn til sjúkratrygginga um hvernig tekið yrði á því ef sjúklingar bæðu um endurgreiðslu vegna komu til mín, í ljósi þessarar óviðunandi biðar, en þeir fylgja bara ráðuneytinu, og svarið var að það yrði ekki endurgreitt. Einfaldast hefði verið, fyrst það á ekki að taka mig inn á samning, að hlusta samt á landlækni og greiða niður þjónustuna til sjúklingana. Þetta voru gríðarleg vonbrigði og þarna tel ég brotið á rétti sjúklinga til heilbrigðisþjónustu.“

Anna hóf það ferli að sækja um að komast á samning löngu áður en hún kom heim og aðdragandinn var því töluverður. Hún hefur hins vegar alls staðar rekist á lokaðar dyr í kerfinu og fengið hverja neitunina á fætur annarri. „Ef ég hefði vitað að þetta yrði staðan er mjög líklegt að ég hefði aldrei komið heim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert