Sögulegur þjóðlegur bræðingur

Bjarki Hilmarsson og Andri Davíð Pétursson eru hæstánægðir með útkomuna.
Bjarki Hilmarsson og Andri Davíð Pétursson eru hæstánægðir með útkomuna. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Sérstök rúgbrauðsútgáfa af íslensku brennivíni var nýlega sett á markað. Við framleiðsluna er notað seytt hverabrauð sem bakað er í jörð við Geysi. Brauðið er látið liggja í jörð, í holu Bergs frá Laug nánar tiltekið, í um sólarhring áður en það er skorið í bita, snöggsteikt á pönnu og því næst lagt í brennivínstankinn þar sem brennivínið tekur úr því lit og bragð.

Brennivín Rúgbrauð Edition, eins og þessi útgáfa kallast, fæst í fríhöfninni í Leifsstöð og er væntanlegt á bari og veitingahús á næstunni. Þá er stefnt að því að brennivínið fari í sölu í Bandaríkjunum undir áramót. Hið hefðbundna íslenska brennivín hefur einmitt notið talsverðra vinsælda þar um slóðir.

Þessi útgáfa brennivíns er byggð á hanastéli sem Andri Davíð Pétursson þróaði fyrir nokkrum misserum og var meðal annars framreitt á veitingastaðnum Mat & drykk. Þar var boðið upp á rúgbrauðslegið brennivín með síld.

Passar vel með síldinni

„Pælingin á bak við rúgbrauðs-brennivínið var fyrst og fremst að ná að sameina þarna tvö sjúklega þjóðleg atriði í eitt. Það er auðvitað mikil hefð fyrir síld á rúgbrauði og svo brennivíni með. Eftir að hafa látið brennivínið liggja í rúgbrauðinu tekur það í sig lykt, lit og bragð frá því. Á Mat & drykk framreiddum við þetta svo alltaf með síld og slepptum þá brauðinu sjálfu, enda sá karakter kominn í brennivínið. Að öðru leyti gengur þessi blanda af brauðinu og brennivíninu fullkomlega upp ein og sér. Brennivínið er bjart og hreint með góðu kúmenbiti í grunninn en rúgbrauðið er sætt og þyngra í bragði og saman myndar þetta frábært jafnvægi ef þetta er gert á réttan hátt,“ segir Andri. Hann starfar þessa dagana sem veitingaráðgjafi og aðstoðar bari og veitingastaði við samsetningu á drykkjum og drykkjarseðlum undir nafninu The Viceman. 

Bjarki Hilmarsson bakar seytt rúgbrauð í holu Bergs frá Laug …
Bjarki Hilmarsson bakar seytt rúgbrauð í holu Bergs frá Laug við Geysi í Haukadal. Brauðið er bakað í sólarhring og þykir einsta Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Bakað með jarðvarma

„Þegar forsvarsmenn brennivíns höfðu samband við mig og vildu fá mig í samstarf um að setja þetta á markað í tilraunaskyni hófst skemmtilegt þróunarferli. Það var ljóst að við þyrftum talsvert magn af rúgbrauði og svo er það til í ýmsum útgáfum og mjög misjöfnum gæðum. Þá kom strax upp sú hugmynd að hafa samband við snillinginn Bjarka Hilmars, yfirmatreiðslumeistara hjá Hótel Geysi í Haukadal. Bjarki og félagar baka nefnilega eitt allra besta rúgbrauðið í bransanum uppi á Geysi,“ segir Andri.

„Það sem gerir það svo einstakt er að þeir baka það með jarðvarma inni á hverasvæðinu – bókstaflega troða því ofan í jörðina og leyfa því að bakast í sólarhring áður en þeir sækja það tilbúið til neyslu daginn eftir. Þessi Geysisbrauð eða hverabrauð eru ekki eins sykruð og þau sem framleidd eru á styttri tíma heldur er um svokölluð seydd rúgbrauð að ræða, þar sem hægeldunin nær að brjóta niður sterkjuna í korninu og skilar mun þéttari og safaríkari niðurstöðu. Sem betur fer tók Bjarki vel í þetta. Hann tekur svo brauðið fyrir okkur og léttristar eða brúnar það áður en við leggjum það í tank með tilbúnu brennivíni. Þar fær þetta svo að sitja í einhverjar vikur áður en við léttsíum það og setjum á flöskur.“

Sjálfur er Bjarki ánægður með þessa tilraun: „Þetta er mjög spennandi og ég held að þetta verði vinsælt hjá ferðamönnum. Bragðið af brennivíninu, einiber og kartöflur, fer vel með hverabrauðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert