Víðtækar breytingar í loftslagsmálum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði víðtækar breytingar í loftslagsmálum í þættinum Silfrinu á RÚV í morgun.

„Þar munum við horfa á algjörlega breytt kerfi,“ sagði hún og nefndi að ríkisstjórnin myndi kynna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á morgun.

Katrín sagði að kerfisbreytingar væru fram undan í mjög mikilvægum og stórum málaflokkum.

Aðspurð sagði hún að fjárlögin sem kynnt yrðu á þriðjudaginn yrðu mjög framsækin. Þau myndu endurspegla nýsamþykkta fjármálaáætlun og ættu því ekki eftir að koma á óvart.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ásamt Þorsteini Víglundssyni.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ásamt Þorsteini Víglundssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, voru einnig gestir þáttarins.

Þorgerður Katrín sagði mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um að leysa þá vinnudeildu sem framundan er. Hún bætti við að það vantaði langtímaáætlun fyrir fjölskyldur í landinu og hvernig hægt væri að lækka kostnaðinn á þær.

Til þess að það væri hægt sagði hún mikilvægt að afnema samkeppnishindranir, meðal annars í landbúnaði.

Logi sagði gallann við núverandi ríkisstjórn vera þá að hún hafi þurft að gera málamiðlun í þeim málum sem snúa að félagslegum stöðugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert