Dæmdur fyrir að brjóta gegn dætrum sínum

Maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Austurlands.
Maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Austurlands. mbl.is/Gúna

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dætrum sínum og jafnframt fyrir að hafa brotið gegn nálgunarbanni sem hann sætti gagnvart næstelstu dóttur sinni meðan á rannsókn málsins stóð. Maðurinn hafði áður verið dæmdur í fangelsi fyrir ítrekuð og gróf kynferðisbrot gagnvart elstu dóttur sinni árið 1991.

Maðurinn var ákærður í sjö liðum en sýknaður af hluta þeirra þar sem frásögn dóttur hans þótti ekki nógu eindregin eða nákvæm. Þá hafi spurningar rannsakenda verið leiðandi. Maðurinn neitaði fyrir dómi að hafa brotið kynferðislega gagnvart dætrum sínum en játaði að hafa brotið gegn nálgunarbanni. Brotin sem hann var ákærður fyrir nú áttu sér stað árunum 2004 til 2016. Sagt var frá dómnum í morgun í Fréttablaðinu.

Næstelsta dóttir mannsins skýrði frá því fyrir dómi að kynferðisbrot föður hennar hefðu farið að rifjast upp fyrir henni eftir að hún hóf nám í framhaldsskóla haustið 2015. Staðhæfði hún að fram til þess tíma hefði hún í reynd útilokað allar minningar sínar um brotin, enda hefði verið langt um liðið og hún verið mjög ung að árum þegar atvik gerðust, en að auki hefðu aðrir erfiðir þættir í líf hennar haft þar áhrif á. Staðhæfði hún að það sem hefði sérstaklega hreyft við huga hennar að þessu leyti hefði verið frásögn vinkonu hennar í framhaldsskólanum, sem hefði þurft þola brot af þessu tagi. Einnig sagði hún að slík málefni hefðu verið til umræðu í tengslum við leiklist í skólanum, en þá helst að því er varðaði viðbrögð við slíkum brotum.

Stúlkan greindi lögreglu frá brotum föður síns í apríl árið 2016, eftir að afskipti höfðu verið höfð af henni í kjölfar þess að hún hagaði sér undarlegar í viðurvist jafnaldra og afklæddi sig. Eftir það sætti faðir hennar gæsluvarðhaldi í þrjá daga vegna rannsóknarhagsmuna og var í kjölfarið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart dóttur sinni.

Fyrir dómi rifjaði hún upp fyrstu minningar sínar af ofbeldinu sem hún taldi hafa hafist þegar hún var 5 eða 6 ára:

Ég man bara að við vorum að tannbursta okkur og að fara að sofa og hann var að segja mér einhverja sögu ... Ég man, ég var sofandi og svo allt í einu vakna ég við, hann var, ég fann fyrir því, vont bara, og svo fattaði ég það að pabbi var eitthvað að káfa á mér eða eitthvað, ég man ekki alveg hvað það var og svo daginn eftir sagði hann: „Fyrirgefðu“ og ég lofa að gera þetta aldrei aftur. ... hann sagði bara að hann gæti lent í einhverju slæmu ef ég myndi segja frá.  En svo gerðist það.

Þá sagði stúlkan fyrir dómi að hún hefði verið haldin vanlíðan vegna þeirra minninga sem hefðu komið upp í huga hennar á unglingsárum og þá vegna lýstra brota ákærða. Hún sagði að þessi vanlíðan hennar hefði farið vaxandi með árunum og staðhæfði að hún hefði verið helsta undirrót þess að hún hóf að lifa óheilbrigðu líferni og hegða sér „skringilega“ í návist jafnaldra sinna.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn stúlkunni þegar hún var á aldrinum 9 til 11 ára. Fyrir að hafa látið hana horfa á klámefni í tölvu, klætt hana úr fötunum og haft við hana önnur kynferðismök en samræði. Var það mat dómsins að stúlkan hefði verið samkvæm sjálfri sér varðandi frásögn af þessum brotum og framburðurinn nákvæmur.

Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn þriðju dóttur sinni þegar hún var á aldrinum 7 til 9 ára þar sem þau voru stödd á hótelherbergi í útlöndum. Framburður stúlkunnar var metinn trúverðugur og var hann studdur af sálfræðingum. Taldi dómurinn sannað að um kynferðisbrot hefði verið að ræða en ekki eiginlegt samræði.

Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn nálgunarbanni gagnvart elstu dótturinni.

Fyrir dómi staðhæfði ákærði að hann hefði aldrei fundið kenndir til barna eða barnagirndar, en sagði að kynhvöt hans í gegnum tíðina hefði verið í „meira lagi“. Ákærði neitaði því aðspurður fyrir dómi að hin mikla kynhvöt hans hefði að einhverju leyti beinst gegn elstur dóttur hans sem hann gerðist einnig brotlegur gagnvart og var dæmdur fyrir árið 1991.

Ákærði staðhæfði að þegar þau brot gerðust hefðu aðrar aðstæður verið fyrir hendi í lífi hans, þrátt fyrir að stúlkan hefði er hann braut gegn henni sofið í sama rúmi og hann. Vísaði ákærði að því leyti m.a. til þess að þegar hann braut kynferðislega gegn stúlkunni hefði hann ekki kennt kvenmanns um langa hríð, en vaknað við fyrrgreindar aðstæður og þá við blautar draumfarir og sáðlát, en þá jafnframt strax áttað sig á því sem gerst hefði. Staðhæfði ákærði að þannig hefði ekki verið um viljaverk að ræða af hans hálfu, en hann engu að síður játað brot sín og sök fyrir dómi. Ákærði staðhæfði að mörg undanfarin ár hefði hann náð að fullnægja hinni miklu kynhvöt sinni. 

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um alvarleg brot væri að ræða sem væru framin í skjóli trúnaðartraust. Þætti það sýna einbeittan brotavilja. Voru fjögur ár því talin hæfileg refsing. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða dætrum sínum miskabætur. Þeirri eldri 1,5 milljónir króna en hinni yngri 3 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert