Hin fullkomna aðferð er of flókin

Þorkell segir í raun varla hægt að nota hina fullkomnu …
Þorkell segir í raun varla hægt að nota hina fullkomnu aðferð, þar sem kerfið verði að vera gegnsætt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópur áhugamanna, sem kallar sig Kosningafræðaklúbbinn og samanstendur aðallega af tölvunar- og stærðfræðingum, hefur um nokkurt skeið unnið að gerð allumfangsmikils kosningakerfahermis, sem er hugbúnaður til að prófa gæði aðferða til að úthluta þingsætum í tvívíðu kosningakerfi eins og því íslenska. Hermirinn er nú tilbúinn til notkunar og var hann kynntur í dag á opnum fundi í Háskólanum í Reykjavík. Kosningakerfaherminum er ætlað að auðvelda vinnu við breytingar á kosningakerfum og gera fræðilegar athuganir á þeim.

„Það er hægt að setja inn allskonar hugmyndir um það hvernig kosningakerfi maður vill hafa. Það er örugglega komið að því núna að það verði farið að endurskoða kosningalögin á Alþingi, en það er gert á 20 til 30 ára fresti og það eru að verða komin 20 ár síðan síðast,“ segir Þorkell Helgason stærðfræðingur, en hann er einn þeirra sem unnið hafa að gerð hermisins.

Þorkell hefur verið viðriðinn vinnu við kosningakerfi, sem ráðgjafi þingsins, frá árinu 1982 og er því nokkuð vel að sér í því hverju eru verið að leita eftir.

„Menn vilja prófa alls konar möguleika og spyrja gjarnan hvernig þetta hefði komið út í ákveðnum kosningum. Ég hef alltaf lagt áherslu á að það sé varhugavert að nota raunverulegar kosningar sem prófun. Það getur villt mönnum sýn. Allir eru haldnir einhverjum fordómum um hvernig útkoman hefði átt að vera. Því er betra að nota tilbúin kosningaúrslit við prófun á nýjum kosningakerfum.“

Hægt er að gera allskonar mælingar

En hvað gerir hugbúnaðurinn nákvæmlega?

„Þetta er tæki þar sem notandinn prófar hugmyndir sínar um breytta kjördæmaskipan eða breytt úthlutunarákvæði. Hann getur síðan gengið út frá raunverulegum kosningum sem útgangspunkti en síðan býr kerfið til mörg, þess vegna 10 þúsund, eintök af kosningum í líkingu við þær með slembibreytingum. Þau úrslit sem koma upp eru ekki út í hött heldur í námunda við það sem hefur gerst. Svo geta menn gert allskonar mælingar. Eins og hvort náðst hafi jöfnuður á milli flokka og fleira af því tagi,“ útskýrir Þorkell.

Áhugi Þorkels á þessum útreikningum er einkum fræðilegs eðlis, en hann segir útreikninga við útdeilingu á jöfnunarsætum mjög skemmtilega stærðfræði.

„Ég hef verið að dunda mér við það í mörg ár, ásamt sænskum félaga mínum, að þróa fræðin en okkur vantaði tæki til að prófa okkar hugmyndir. Svo kom í ljós að það eru fleiri sem hafa áhuga á þessu, þannig þetta er nettur hópur, aðallega tölvu- og stærðfræðingar. Við höfum beðið með að hleypa stjórnmálamönnum í þetta,“ segir Þorkell hlæjandi um hópinn sem stendur á bak við kosningakerfaherminn. „Við vildum fyrst klára okkar verkfæri áður en þeir fengju þetta í hendurnar,“ bætir hann við. „En svo er hugmyndin að þetta verði aðgengilegt. Við erum ekki að gera þetta fyrir neinn eða til þess að reka áróður fyrir einhverjum sérstökum breytingum. Það er ekki okkar hlutverk.“

Kerfið verður að vera gegnsætt

Ef tekið er mið af eðlilegum kröfum um það hvernig kosningakerfi á að virka, þá er hægt að sanna að það er bara til ein rétt aðferð til að útdeila jöfnunarsætum, en það er fræðilega erfiðasti hluti úthlutunarferlisins, að sögn Þorkels. Hún er hins vegar svo flókin að erfitt er að útskýra hana fyrir öðrum en stærðfræðingum og því illmögulegt að nota hana.

„Hin fullkomna aðferð er til, en að mínu mati og að fenginni reynslu eftir að hafa ráðlagt þingmönnum um áratugaskeið um þetta efni, þá verður kerfið að vera gegnsætt. Það er ekki nóg að segja að þetta sé stærðfræðilega rétt og í lagi. Þetta sé besta lausnin. Það verður að vera hægt að skilja hana líka. Vandinn er sá að þeim mun meiri sem gæðakröfurnar eru, því nær sem við erum bestu lausninni, þeim mun flóknara verður þetta. Málið snýst því um að fara í einhverjar málamiðlanir,“ segir Þorkell. Og þá er gott að hafa aðgang að kosningakerfahermi til að prófa gæði aðferða, bæði fyrir fræðimenn – en líka fyrir stjórnmálamenn.

Í sumar vann Martha Guðrún Bjarnadóttir, nemi við Háskólann í Reykjavík, að forritun kosningakerfahermisins, en hún var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert