Hótaði barnsmóður og deildi nektarmyndum

Héraðssaksóknari ákærði manninn fyrir hótanir, ærumeiðingar og blygðunarsemisbrot gagnvart fyrrverandi …
Héraðssaksóknari ákærði manninn fyrir hótanir, ærumeiðingar og blygðunarsemisbrot gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni. mbl.is/Ófeigur

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann fyrir hótanir, ærumeiðingar og blygðunarsemisbrot gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður. Deildi maðurinn kynferðislegum myndum af konunni á Facebook ásamt nafni hennar, símanúmeri og notendanafni á Snapchat. Þá hótaði hann konunni þannig að hún mátti óttast um líf sitt.

Er maðurinn ákærður fyrir blygðunarsemisbrot með því að hafa deilt mynd af konunni þar sem sást í brjóst hennar á Facebook-síðu. Deildi hann persónuupplýsingum um konuna auk þess með myndinni og sagði að til væru myndbönd af henni ef fólk vildi.

Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa sent konunni skilaboð símleiðis sem innihéldu skjáskot af færslunni á Facebook ásamt ósmekklegum ummælum um konuna.

Í þriðja lagi er maðurinn ákærður fyrir að hafa sent konunni fjölmargar hótanir með skilaboðum símleiðis, en fram kemur að þau hafi verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og veðferð sína auk þess að móðga hana og smána.

Segist maðurinn í skilaboðunum meðal annars ætla að kveikja í íbúðinni hennar, drepa bróður hennar og gefur henni nokkrar mínútur til að hleypa sér inn. Þá sendi hann henni mynd af byssutösku með skilaboðunum „Þú veist að þetta kemur með;)“. Í næstu skilaboðum segir hann: „Æjj æjjj klukkan er orðin...hlakka til að sja þig liggja i þin eigin bloði fooooking horu ógeð þetta er það sem þu valdir Njóttu fkn sársaukan !! Þu heldur virkilega að eg se að djoka Sjaðu bara hvað skeður.“

Segir hann síðar að hann muni ganga frá henni, segir konuna vera druslu og að myndbönd af henni séu í dreifingu á Snapchat.

Í fjórða lagi er maðurinn ákærður fyrir stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa sent henni tvenn skilaboð símleiðis þar sem hann gerir meðal annars athugasemdir við það hvort dóttir þeirra sé í raun hans dóttir og kallar konuna jafnfram öllum illum nöfnum.

Farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar og fer konan auk þess fram á að maðurinn greiði henni 3 milljónir í skaðabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert