Stefna að bensín- og dísilbílabanni 2030

Gangi áform ríkisstjórnarinnar eftir verður bannað með lögum að nýskrá …
Gangi áform ríkisstjórnarinnar eftir verður bannað með lögum að nýskrá bensín- og díselbíla á Íslandi árið 2030. mbl.is/Árni Sæberg

Með nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum markar ríkisstjórnin þá stefnu að nýskráningar bensín- og dísilbíla verði almennt óheimilar eftir árið 2030. Þessi aðgerð og fleiri eru hluti af átaki í orkuskiptum í vegasamgöngum, sem hefur það markmið að notkun jarðefnaeldsneytis leggist á endanum af.

Raunhæft er talið að stefna að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis alfarið á Íslandi fyrir miðja þessa öld, samkvæmt því sem fram kemur í aðgerðaáætluninni.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda segir að samfara þessu banni við nýskráningum bíla sem einungis ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði þó gætt sérstaklega að hugsanlegum undanþágum. Mögulega verði þannig gerðar undanþágur, með vísan til byggðasjónarmiða, á þeim svæðum þar sem erfitt væri að nota aðra bíla en þá sem ganga fyrir bensíni og dísilolíu.

Með því að stefna að þessu banni við sölu bíla sem ganga einungis fyrir bensíni og dísilolíu myndi Ísland feta í fótspor ríkja á borð við Frakkland  og Bretland, en ríkisstjórnir beggja tilkynntu í fyrra að stefnt yrði að hinu sama frá árinu 2040.

Skoða að úrelda eldri bíla

Í aðgerðaáætluninni segir einnig að gerð verði úttekt á mögulegum ávinningi þess að ráðast í tímabundið átak við „úreldingu“ bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti í því skyni að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum.

„Við úreldinguna yrði horft til aldurs og eyðslu bílanna. Metið verður hvort tímabundið átak sé líklegt til að skila sama eða meiri árangri en ef sömu upphæð yrði varið til styrkingar innviða fyrir loftslagsvæna bíla. Horft verður til reynslu annarra sem sett hafa upp slík stuðningsverkefni,“ segir í aðgerðaáætlun stjórnvalda.

Þar kemur einnig fram að ríkið ætli að verða leiðandi í að samfélaginu þegar kemur að hlutfalli visthæfra bíla og að þeim verði fjölgað „eins hratt og mögulegt er“, með kröfum um að ríkið kaupi ætíð rafbíl eða annað visthæft ökutæki er bílaflotinn er endurnýjaður.

Minnka losun frá vegasamgöngum um helming

Stefnt er að því að losun koltvísýrings frá vegasamgöngum á Íslandi verði árið 2030 um það bil helmingi minni en nú er, eða 500.000 tonn árið 2030 í stað nærri milljón tonna nú.

„Reiknað er með að þessu markmiði verði náð einkum með stórauknu hlutfalli rafbíla og annarra vistvænna ökutækja í bílaflotanum,“ segir í aðgerðaáætlun stjórnvalda, sem stefna að því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í vegasamgöngum verði orðið 40% árið 2030.

Markmiðið er að losun frá vegasamgöngum árið 2030 verði um …
Markmiðið er að losun frá vegasamgöngum árið 2030 verði um helmingi minni en hún er nú. Graf/Umhverfisráðuneytið

Það eru þó ekki bara orkuskiptin sem ætlað er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Efling almenningssamgangna, hjólreiða og göngu sem samgöngumáta er einnig sögð mikilvægur þáttur í að draga úr losuninni.

„Huga þarf að samgöngumiðuðu skipulagi sem gerir aðra ferðamáta en einstaklingsbíla að raunhæfum valkostum. Samtímis er mikilvægt að breyta ferðavenjum, gera þær fjölbreyttari með öflugum almenningssamgöngum, deilihagkerfislausnum og styrkingu innviða fyrir gangandi og hjólandi,“ segir í aðgerðaáætlun stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert