Við deilum boðskapnum: „Ég er nóg.“

Alda Karen segir fólk verða að vera meðvitað um að …
Alda Karen segir fólk verða að vera meðvitað um að það sé ekki tilfinningar sínar. Mynd/Aðsend

„Ég tel að allt umtal um hugann geti stuðlað að ótrúlega miklum stuðningi. Fólk getur lært heilmikið um eigin huga sem getur komið í veg fyrir að þessi andlegi sjúkdómur, þessi hugsun: „Ég er ekki nóg“ dragi fólk yfir línuna,“ segir Alda Karen Hjaltalín, fyrirlesari og sölu- og markaðsstjóri hjá Ghostlamp, en hún rekur svokallaða hugarræktunarstöð í New York og London en þjónustan er einnig aðgengileg hér á landi.

Alda mun flytja fyrirlesturinn: „Hugurinn þinn“ á opnu málþingi sem haldið er í dag í húsakynnum deCode í tilefni af Alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga.

„Ég mun fjalla um stærsta sjúkdóm sem hefur skekið mannkynið, sem er hugsunin: „Ég er ekki nóg“ og dregur fjölda fólks til dauða á hverju ári. Þessi sjúkdómur, „ég er ekki nóg“, er eitthvað sem við hjá hugarræktunarstöðinni sérhæfum okkur. Við deilum boðskapnum: „ég er nóg“ og „þú ert nóg“ og ég mun einmitt fjalla aðeins um það í dag. Það er vandmeðfarið að tala um sjálfsvíg því fólk er misviðkvæmt og aðgát skal höfð í nærveru sálar,“ segir Alda um fyrirlestur sinn, en þetta er í fyrsta skipti sem hún flytur hann á íslensku. Um er að ræða vinsælasta hópatímann í hugarræktunarstöðinni í New York, að sögn Öldu.

Markmiðið er að fólk geti gripið sjálf sig

„Ég er ekki kennari, ég er ekki sálfræðingur, taugavísindamaður eða neitt svoleiðis. Ég er bara ung kona sem kemur með ferskan blæ á það hvernig við horfum á geðheilsu. Ég trúi að það séu margar lausnir til í tækni og margar lausnir í því að tala um hugann og vera meira meðvitaður um hvað er að gerast í huganum. Að gera sér grein fyrir því hvað hugsanirnar þýða. Að vera meðvitaður um að þú ert ekki hugsanir þínar og þú ert ekki tilfinningar þínar. Stundum eru hugsanir bara hugsanir og tilfinningar bara tilfinningar.“

Alda segir aðalmarkmiðið, bæði með hugarræktunarstöðunni og því sem hún ætlar að fjalla um í dag, vera að gera fólk meðvitaðra um hvernig hugur þess virkar.

„Mitt markmið er ekki að fólk masteri ótta, masteri einhverja hæfileika eða það að vakna klukkan sex á morgnana. Mitt aðalmarkmið er að fólk grípi sjálft sig. Að fólk sé nógu meðvitað til að grípa sjálft sig þegar það er sín stærsta hindrun í lífinu,“ útskýrir Alda.

Eins og Geðhjálp hefur bent á þá þurfum við meiri rækt við geðheilsu í skólum, sérstaklega hjá ungu fólki. Þess vegna fékk Geðhjálp mig til að koma fram á þessu málþingi. Ég er hluti af þessu unga fólki, ég tala fyrir bættri andlegri heilsu með því að gera fólk meðvitað um hvað er að gerast í huga þess.“

Hjálpa fólki að komast yfir ótta með sýndarveruleika

Á málþinginu í dag mun Alda einnig kynna hugarræktunarstöðina sem hefur verið starfandi í New York í allt sumar. En til stendur að bjóða upp á ákveðna þjónustu í hugarrækt hér á Íslandi sem ber heitið Wave. Ekki er þó um að ræða útibú stöðvarinnar, staðsett á einum ákveðnum stað, heldur verður hægt að panta þjónustuna heim til sín eða í fyrirtæki.

„Þetta er eins og venjuleg líkamsræktarstöð, nema í staðinn fyrir einkaþjálfara ertu með sálfræðinga og markþjálfa og á aðalæfingasvæðinu okkar erum við með sýndarveruleikagleraugu í staðinn fyrir lóð. Þar setjum við fólk inn í ýmiss konar aðstæður. Það kom til dæmis til okkar kona í apríl sem var mjög hrædd við að tala fyrir framan fólk. Þannig að við settum hana í svona sýndarveruleikagleraugu og létum hana tala fyrir framan 10 þúsund manns, 5 þúsund manns, 2 þúsund manns og 10 manns. Við létum hana gera þetta aftur og aftur til að kenna heilanum að gera eitthvað óþekkt að einhverju þekktu. Svona erum við að þjálfa fólk í að komast yfir ótta og fóbíu,“ segir Alda um starfsemi stöðvarinnar, en hægt er að nýta þjónustuna í ýmsum öðrum tilgangi, eins og að vinna á prófkvíða.

„Þá látum við fólk vakna inni á baðherbergi og líta í spegilinn þar sem það sér sjálft sig sem Albert Einstein. Svo fer fólk inn í skólastofu og er umkringt mörgu fólki. Þannig venjum við fólk við að vera í þessum aðstæðum. Þegar fólk þarf svo að fara að taka próf eða halda kynningu þá er heilinn búinn að upplifa aðstæðurnar margoft í þessum sýndarveruleikaheimi. Við sjálf erum okkar stærsta hindrun og við erum að gefa fólki ákveðnar lausnir við því, bæði með tækni og fyrirlestrunum sem ég er með.“

Málþingið Stöndum saman gegn sjálfsvígum er haldið í húsakynnum deCode við Sturlugötu 8 í dag á milli 15 og 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert