29 milljarða tekjuafgangur

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp 2018.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp 2018. mbl.is/​Hari

Gert er ráð fyrir að afgangur á heildarafkomu ríkissjóðs verði 1% af vergri landsframleiðslu árið 2019, eða um 29 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019 sem verður lagt fram á Alþingi í dag.

Þetta er í samræmi við afkomumarkmið fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar en rekstur ríkissjóðs hefur verið jákvæður síðustu ár þrátt fyrir verulegan vöxt útgjalda.

Alls aukast heildargjöld ríkissjóðs milli ára um 7% að nafnvirði, eða um ríflega 55 milljarða króna. Á móti er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs aukist um tæplega 52 milljarða.

Framlög til heilbrigðismála verða aukin og vega þar þyngst framkvæmdir við nýjan Landspítala en áætlað er að verja 7,2 milljörðum króna til þeirra á næsta ári. 

Hækkun framlaga til heilbrigðismála milli 2018 og 2019 nemur 12,6 milljörðum króna, að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. 

Heildarhækkun framlaga til félags- húsnæðis- og tryggingamála nemur 13,3 milljörðum króna, að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. 

Fram kom í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi að staða ríkissjóðs sé traustari en verið hefur um árabil. Landsframleiðsla hafi aldrei verið meiri og að skuldir hafi lækkað hraðar en búist var við.

Bætt staða mun gera ríkisstjórninni kleift að ráðast í uppbyggingu innviða og auka framlög til ýmissa mikilvægra málafloka.

Skuldir lækkað um 10 milljónir á klukkustund

Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 658 milljarða króna á sex árum og og hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkað úr 86%, þegar það var hæst árið 2011, í 31% í lok þessa árs.

Frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu skuldir ríkissjóðs um 88 milljarða króna en það samsvarar því að skuldir hafi lækkað um 10 miljónir á klukkustund.  Vegna þessara aðgerða munu skuldir ríkissjóðs fara undir viðmið fjármálareglna um opinber fjármál í fyrsta sinn árið 2019. Útlit er fyrir að hrein vaxtagjöld verði um 26 milljörðum lægri árið 2019 en árið 2011.

5,5 milljarða aukning til samgöngumála 

Gert er ráð fyrir 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála sem skýrist fyrst og fremst af sérstöku átaki í samgöngumálum á árunum 2019 til 2021 sem verður fjármagnað með tímabundnum umframarðgreiðslum fjármálafyrirtækja líkt og var boðað í gildandi fjármálaáætlun. Reiknað er með að framlög til samgöngu- og fjarskiptamála verði aukin um 9% á árinu 2019 en framlög til málaflokksins verða ríflega 43,6 milljarðar króna. 

Af öðrum stærri fjárfestingarverkefnum má nefna fyrstu framlög til kaupa á nýjum þyrlum fyrr Landhelgisgæsluna. Gert er ráð fyrir að þær verði afhentar árið 2022, auk uppbyggingar Húss íslenskunnar. 

Þrátt fyrir að hægist á vexti er hann enn umtalsverður og talsvert meiri en flest þróuð hagkerfi í Evrópu geta vænst. Staða efnahagsmála telst góð á flesta mælikvarða eins og enduspeglast í mati lánshæfisfyrirtækjanna á ríkissjóði en lánshæfiseinkunn Íslands hefur jafnt og þétt hækkað síðustu ár.

„Nú fer að hægja um í hagkerfinu“

„Nú fer að hægja um í hagkerfinu. Þar af leiðandi er ekki hægt að gera ráð fyrir því að ríkissjóður geti staðið fyrir jafnmiklum útgjaldavexti og við höfum séð undanfarin ár,“ sagði Bjarni á fundinum.

Hann sagði tíma kominn til að meta stöðuna upp á nýtt og leggjast í endurmat útgjalda en nefndi að áfram væri svigrúm ef grípa til ákveðinna ráðstafana, til dæmis með sölu eigna ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert