Greiðum 535 milljónir fyrir Office-pakkann

Samningur ríkisins við Microsoft var undirritaður í byrjun júní.
Samningur ríkisins við Microsoft var undirritaður í byrjun júní. AFP

Heildstæður hugbúnaðarsamningur ríkisins við Microsoft kostar 535 milljónir á ársgrundvelli, en samningurinn var gerður fyrr á þessu ári og sparar ríkinu um 200 milljónir króna árlega. Hann gildir til ársins 2021, samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Samningurinn felur meðal annars í sér aðgengi ríkisstofnana að nýjustu útgáfu Office 365-hugbúnaðarpakkans, sem inniheldur forrit á borð við Word og Excel, auk hópvinnukerfis og póstkerfis. Áður gerðu ráðuneyti og stofnanir sína eigin samninga um hugbúnaðarleyfi og voru slíkir samningar áður 104 talsins, en eru nú tveir, einn fyrir almennar stofnanir ríkisins og annar fyrir menntastofnanir.

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu er þessi samningur nefndur sem dæmi um að góður árangur hafi náðst við að bæta innkaupastefnu ríkisins og nýta innkaupastyrk þess til að ná hagkvæmari samningum við birgja.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði við undirritun samningsins  í júní að hann teldi ríkið hafa náð verulega hagstæðum samningum við Microsoft og að samningurinn markaði viss tímamót, þar sem þetta væri fyrsti samningurinn af þessu tagi sem Microsoft gerði við heilt ríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert