Auka útgjöld til samgöngumála um 12,3%

Framlög til samgöngumála hækka um rúma fjóra milljarða króna samkvæmt …
Framlög til samgöngumála hækka um rúma fjóra milljarða króna samkvæmt frumvarpinu. Mynd frá vegaframkvæmdum á Hellisheiði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar hækka fjárheimildir til samgöngumála um rúma fjóra milljarða, eða um 12,3% frá gildandi fjárlögum. Gert er ráð fyrir því að heildarútgjöld til málaflokksins verði rúmir 41,3 milljarðar.

Mest munar um hækkað framlag til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu. Stefnt er að því að bæta viðhald verulega þannig að heildarframlag til viðhalds verði um 10 milljarðar á árinu og framlag til framkvæmda tæplega 14 milljarðar.

„Á meðal stórra framkvæmda á árinu 2019 má nefna, breikkun vegarins Selfoss-Hveragerði, veg um Kjalarnes, Kaldárselsveg-Krísuvíkurveg, Dýrafjarðargöng og veg um Gufudalssveit ef niðurstaða fæst,“ segir í frumvarpinu, en framlag til þjónustu á vegakerfinu er einnig aukið um 500 milljónir króna á milli ára.

Í frumvarpinu segir að bregðast verði við mikilli umferðaraukningu að vetrarlagi og auka þjónustu á helstu ferðamannaleiðum. Þá er stefnt að því að bæta umferðaröryggi með betri vegmerkingum og málun kantlína.

Almenningssamgöngur

Styrkir til almenningssamgangna verða alls ríflega 3,3 milljarðar króna og hækka þeir um 150 milljónir á milli ára. Í frumvarpinu segir að þörf sé á auknu framlagi til almenningssamgangna, meðal annars til að hægt verði að fjármagna samninga um áætlunarakstur á landsbyggðinni, þar sem víða hafi verið halli á rekstrinum.

„Með þessu er stutt við markmið um umhverfisvænar samgöngur og jákvæða byggðaþróun,“ segir í frumvarpinu en þar kemur einnig fram að á árinu verði unnið að innleiðingu á heildarstefnu í almenningssamgöngum. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki talað sérstaklega um stuðning ríkisins við nýtt almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarlínu, borgarlínu.

730 milljónum króna er varið til dýpkunarbúnaðar við Landeyjahöfn og einnig er ný Vestmannaeyjaferja fjármögnuð, sem þýðir að 1,4 milljarða króna tímabundið framlag til þess verkefnis fellur niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert