Gæslan fái nýjar þyrlur 2022

Varið verður 1,9 milljörðum króna á fjárlögum næsta árs til kaupa á nýjum björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun.

Gert er ráð fyrir að keyptar verði þrjár þyrlur og að heildarfjárfesting vegna kaupa þeirra nemi um 14 milljörðum króna sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun 2019-2013. Miðað er við að kaupverð hverrar þyrlu verði 4,7 milljarðar króna að því er segir í frumvarpinu.

Reiknað er með því að björgunarþyrlurnar verði afhentar á árinu 2022. Eins og staðan er í dag hefur Landhelgisgæslan á að skipa þremur þyrlum af gerðinni Super Puma en einungis ein þeirra er í eigu hennar en hún er frá árinu 1986. Hinar tvær hafa verið leigðar.

Reiknað er með að útboðsgögn vegna þyrlukaupanna liggi fyrir í lok þessa árs og að fyrsta þyrlan verði afhent í ársbyrjun 2022, önnur þyrlan sex mánuðum síðar og sú síðasta í lok árs 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert