Heimild til að selja forláta fiðlu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. mbl.is/​Hari

Fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fylgja að venju ýmsar heimildir til fjármálaráðherra um ráðstöfun eigna í eigu ríkisins. Flestar þeirra eru óbreyttar frá fyrra frumvarpi og hafa þá ekki verið nýttar enn og vilji til þess að þær séu áfram fyrir hendi. Hins vegar bætast við ýmsar heimildir sem ekki eru fyrir hendi í fjárlagafrumvarpi þessa árs.

Til að mynda má þar nefna heimild til að selja Maggini-fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verja andvirðinu til kaupa á öðru hentugra hljóðfæri, en fiðlan, sem var smíðuð af Giovanni Maggini og er frá því snemma á 17. öld, þykir almennt of stór.

Fjármálaráðherra verður einnig heimilt að selja íbúðarhúsið á Hofi 1, Hólum í Hjaltadal í Skagafirði. Sömuleiðis Austurveg 28 í Árborg, Bjarnabraut 8 í Borgarbyggð og Hjallaveg 28, Laugarásveg 31, Hvassaleiti 30 í Reykjavík. Hvað síðustu eignina varðar skal andvirðinu varið til að kaupa á hentugri íbúð fyrir stofnun Árna Magnússonar.

Ennfremur verður ráðherra heimilt að ganga til samninga við fyrrverandi gefendur lóðar og fasteigna Krýsuvíkurkirkju og vinafélags Krýsuvíkurkirkju um ráðstöfun lóðar og fasteigna endurbyggðrar kirkju og að þiggja Bókhlöðuna í Flatey að gjöf frá sveitarstjórn Reykhólahrepps til varðveislu í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Þá verður fjármálaráðherra heimilt að kaupa eða leigja húsnæði fyrir Póst- og fjarskiptastofnun, að selja eyðibýli og húsarústir sem henta vel til uppgerðar á leigulóð og að heimila Jarðasjóði að selja íbúðarhús á leigulóð á jörðinni Sveinatúni í Grímsey og á jörðinni Langekru í Rangárþingi ytra. 

Einnig verður ráðherra heimilt að heimila Jarðasjóði að selja eða leigja jörðina Tjörn 1 í Húnaþingi vestra, jörðina Kvígsstaði í Borgarbyggð, jörðina Brekku 3 í Mýrdalshreppi, jörðina Sælingsdal í Dalasýslu og jörðina Bakkakot 2 í Skaftárhreppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert