Þingmenn dusti vitleysuna í burtu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ræðu við þingsetningu.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ræðu við þingsetningu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, óskaði þingmönnum velfarnaðar í vandasömum störfum sem fram undan eru þegar hann setti Alþingi, 149. löggjafarþing, fyrir stundu. 

„Ykkar bíða ærin verk, stór sem smá. Í ys og þys líðandi stundar reynist okkur stundum erfitt að greina á milli þess sem skiptir sköpum og hins sem fer í glatkistu tímans og geymist þar uns grúskarar og aðrir leita uppi vitnisburð og lærdóm úr liðinni tíð.“

Sagnfræðingurinn Guðni minntist einnig þess að í ár eru liðin 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. „Það voru svo sannarlega tímamót, stórtíðindi, sem vert er að hampa og halda á lofti.“  

„Til hvers er fullveldi ef fólki líður illa?“

Guðni gerði hamingju landsmanna að umtalsefni í ræðu sinni og vísaði í kannanir sem gefa til kynna að Íslendingar séu á meðal hamingjusömustu þjóða í heimi. „Um leið vitum við hins vegar af ærnum vanda, kvíða og vanlíðan meðal of margra, ungra sem aldinna, álagi og kulnun í starfi, misnotkun lyfja og vímuefna, stundum með hörmulegum afleiðingum. Vaxandi kostnaði við að hlúa að sjúkum, fötluðum og öldruðum, auk allra annarra sem þurfa aðhlynningar við. Hvað er dýrmætara en heilsa og hamingja. Til hvers er fullveldi ef fólki líður illa? Hvað skiptir máli þegar allt kemur til alls?“ spurði Guðni.

Hann minntist einnig Stefáns Karls Stefánssonar leikara sem lést í sumar eftir langt stríð við illvígt krabbamein. „Slík glíma opnar oft augu fólks, bæði hinna veiku og þeirra sem nærri þeim standa.“

Þingmenn eyði ekki dýrmætri orku í dægurþras

 Guðni hvatti að lokum þingmenn til að verja ekki dýrmætri orku í dægurþras heldur dusta frekar vitleysuna í burtu.

„Í stjórnmálum getur vissulega verið erfitt að greina á milli þess stóra og smáa í hita leiksins. Vissulega verður aldrei einhugur um hvað eigi heima hvar í þeim dilkadrætti. Og vissulega er örðugt að spá fyrir um óráðna framtíð, en við myndum án efa búa vel í haginn fyrir okkur sjálf, æskuna, og næstu kynslóðir með því að beina sjónum okkar í ríkara mæli en áður að lýðheilsu og geðvernd, forvörnum og forvirkum aðgerðum.“

149. löggjafarþing var sett í dag.
149. löggjafarþing var sett í dag. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert