Samfélagsmiðlar greiði fyrir efni fjölmiðla

Í pistli sínum gerir Sigurður að umræðuefni sínu afar erfiðan …
Í pistli sínum gerir Sigurður að umræðuefni sínu afar erfiðan róður fjölmiðla vegna tilkomu samfélagsmiðla. AFP

Sporna mætti við síversnandi rekstrarumhverfi hefðbundinna fjölmiðla vegna gegndarlausrar notkunar netrisanna Google og Facebook á fjölmiðlaefni og gögnum án endurgjalds með því að láta þá greiða útgefendum fyrir efni líkt og sjónvarpsstöðvar greiða fyrir efni sem þær sýna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli Sigurðar Már Jónssonar um „ræningjabaróna nútímans“ sem birtist á mbl.is fyrir skemmstu.

Í pistli sínum gerir Sigurður að umræðuefni sínu afar erfiðan róður fjölmiðla vegna tilkomu samfélagsmiðla. Hann segir stærð og umfang þeirra gera það að verkum að ómögulegt sé að útiloka þá, sem sé bersýnilegt í þeirri staðreynd að sjálfur notaði hann Facebook til að vekja athygli á pistli sínum.

Stjórnvöld hafa ekki séð næg tækifæri til að bregðast við stöðunni, að sögn Sigurðar, en síaukin krafa hefur meðal annars verið á Evrópusambandið að setja samfélagsmiðlum ramma með löggjöf sem taki til höfundarréttar og notkunar á efni fjölmiðla.

„Um leið og augljóslega er gengið á höfundarrétt annarra fjölmiðla vefst fyrir mörgum hvernig beri að skilgreina samfélagsmiðlana sem eru ekki fjölmiðlar í hefðbundinni merkingu þess og rekstraraðilar þeirra því ekki útgefendur. Því getur vafist fyrir mörgum að skilja hlutverk þeirra á samkeppnismarkaði á meðan hefðbundnum fjölmiðlum blæðir út.“

Að sögn Sigurðar væri skynsamleg byrjun að samfélagsmiðlar greiddu útgefendum fyrir efnið á sama hátt og sjónvarpsstöðvar greiða fyrir efnið sem þær sýna.

mbl.is