Alþingi þarf að fjarlægja þröskulda

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sagði á Alþingi í kvöld að blikur væru á loft nú þegar nýtt þing gengi í garð. Krónan stundaði meiri loftfimleika en vanalega, stutt væri í hörku í kjaraviðræðum og árið hefði verið ferðaþjónustunni erfitt.

„Hagvöxtur síðustu ár hefur verið illa nýttur; í stað þess að þróa fjölbreyttara hagkerfi, efla menntun og lífsgæði, og reisa Ísland í hæstu hæðir í alþjóðlegum samanburði, hefur öll áhersla verið á því að ná sýndarmennskumarkmiðum um lága skuldastöðu ríkissjóðs,“ sagði Smári.

Hann sagði að sala CCP til Suður-Kóreu væri viðurkenning á vinnu fólks þar. Einnig væri það áminning um hversu erfitt væri að reka fyrirtæki á Íslandi. 

„Við verðum að hætta að gera sjálfum okkur erfitt fyrir. Háir vextir, háir nefskattar, háir þröskuldar til þátttöku, takmarkandi hugmyndafræði, takmarkandi hugarfar og takmarkandi gjaldmiðill heldur aftur af okkur. Það er Alþingis að fjarlægja þessa þröskulda og auðvelda fólki að ná langt,“ sagði Smári.

Hann sagði að markmiðasetning til framtíðar þyrfti að taka mið af umhverfinu. Bæta þyrfti skaðann sem mannfólkið hefði valdið andrúmslofti og lífríki. „ Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er á ýmsan hátt ágæt, en verkefnið er risavaxið. Þrjár tegundir lífvera deyja út á hverjum degi nú þegar, og loftslagsbreytingar eru á góðri leið með að gera suma parta jarðarinnar óbyggilega. Ábyrgð okkar er gríðarleg.“

Smári sagði að markmið Pírata á þinginu væru að gera öllum róðurinn léttari, byggja upp, styrkja og bæta. „Hugum að framtíðinni, en verjum það sem hefur áunnist. Við munum að sjálfsögðu styðja öll góð mál til að ná þessum markmiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert