Ekkert dýrmætara en heilsa og hamingja

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, í ræðustól á Alþingi í kvöld.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, í ræðustól á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi að síðasta þing hefði reynst henni erfitt. Hún hefði haft miklar væntingar til starfsins og fólksins á þinginu. Vonbrigðin hefðu verið mikil þegar hún áttaði sig á því að mikilvægum málum yrði fórnað í nafni stöðugleika.

„Stöðugleiki, orð sem ég get ekki betur séð en sé notað til að merkja óbreytt ástand, stöðnun,“ sagði Halldóra. 

Hún sagði að hagkerfið byggðist á því að endurskilgreina manneskjur sem einfalda neytendur. Það hefði skapað samfélagslega sundrungu sem lýsi sér í borgaralegu sinnuleysi þar sem allt of margir upplifðu mikið og langvarandi tilgangsleysi. Tilgangsleysið lýsti sér í krónísku þunglyndi, tilfinningadeyfð og skorti á samkennd.  

„Heimspekingurinn Paulo Freire ber skóla saman við banka þar sem kennarar leggja þekkingu inn í höfuð nemenda líkt og peningar eru lagðir inn á tóma bankareikninga og velgengni nemenda felst í að skila sem mestum hagnaði sem í samlíkingunni er árangur í gegnum stöðluð og mælanleg próf,“ sagði Halldóra.

„Læra meira, vinna meira, græða meira, kaupa meira. Meira. Deyja,“ sagði Halldóra. Hún sagði að það væri ekki furða að einstaklingar sem ælust upp í þessu kerfi upplifðu tilgangsleysi.

Halldóra sagði að tíminn væri vanmetin auðlind og að samfélög sem þjáðust af tímaskorti væru tilfinningalega veikburða og yrðu auðveldlega hræðsluáróðri að bráð. 

Enn fremur sagði Halldóra að sparnaður í félags- og umhverfismálum fæli í sér aukinn heilbrigðiskostnað og niðurskurður í menntamálum leiddi af sér aukna glæpi og misnotkun vímuefna. „Fjármagnið sem við nýtum til að stuðla að heilbrigðara samfélagi með betri skólum, bættri heilsu, félagslegri samheldni og dafnandi vistkerfi er fjárfesting í hamingjusamara samfélagi sem skilar sér margfalt til baka.“

Halldóra velti upp orðum Guðna Th. Jóhannessonar forseta við þingsetningu. „Við þingsetningu spurði forseti Íslands hvað væri dýrmætara en heilsa og hamingja? Svarið væri einfalt. Ekkert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert