Flugferðum ekki aflýst vegna Flórens

Flugfélögin gera ekki ráð fyrir að Flórens hafi áhrif á …
Flugfélögin gera ekki ráð fyrir að Flórens hafi áhrif á flugáætlun. AFP

Hvorki WOW air né Icelandair hafa aflýst flugferðum vegna fellibylsins Flórens sem nú nálgast austurströnd Bandaríkjanna. Bæði flugfélög hafa þó boðið þeim farþegum sem eiga bókað flug til eða frá þeim stöðum sem fellibylurinn gæti haft áhrif á á næstu dögum að breyta bókun sinni endurgjaldslaust.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, hafa farþegar fengið skilaboð bæði með tölvupósti og smáskilaboðum þar sem þeim er boðið að breyta bókun sinni og velja annan ferðadag innan sjö daga.

„Við viljum að allir farþegar sem eiga bókað flug með WOW air til Newark-, John F. Kennedy- eða Baltimore/Washington International-flugvallar á morgun eða til baka aðfaranótt 14. september séu sem best upplýstir um stöðu mála og biðjum þá vinsamlegast að fylgjast vel með skilaboðum sem þeim hafa borist frá WOW air.“

Farþegum Icelandair hafa ekki verið send skilaboð, en á vefsíðu Icelandair má finna um það upplýsingar að þeim sem eigi bókað flug til Washington, Baltimore eða New York á dögunum 13. til 16. september bjóðist að breyta flugmiðum sínum endurgjaldslaust. Þeir geta fært flugbókanir sínar allt fram til og með 21. september.

Þá eru farþegar hvattir til þess að fylgjast vel með gangi mála og athuga stöðuna á flugi sem þeir eiga bókað í áður en haldið er út á flugvöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert