Inga: „Hjá fátækum rignir allt árið“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gerði fátækt að meginumræðuefni í …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gerði fátækt að meginumræðuefni í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fátækt fólk á Íslandi biður bara um sanngirni, réttlæti og jöfnuð,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. „Og þegar verið er að tala um að beita skattkerfinu í átt að jöfnuði, að jafna kjörin. Felst það í hækkuninni sem er boðuð um áramótin af nánast öllu, alveg sama hvað það er,“ sagði Inga.

„Nei, fátækir geta ekki drukkið áfengi. Þeir verða að hætta að reykja og hætta að drekka. Það á að taka milljarða í ríkissjóð,“ sagði Inga og bætti við að það væri bara fyrir þá sem hefðu efni á því.

Inga gerði fátækt að meginumræðuefni sínu í ræðunni. Skaut hún á ræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hún minntist á vætutíðina í sumar, og sagði að  hjá öryrkjum rigndi allt árið um kring. „Allir þeir sem búa í fátækt eru ekki að biðja um munað. Enginn getur farið í leikhús og enginn getur farið út að borða. Ég tala af eigin reynslu. Kannski einu sinni í mánuði er hægt að hafa pítsu. Mín börn nutu ekki sömu forréttinda og ríkisbubbabörnin allt um kring þar sem allt þótti sjálfsagt að fá,“ sagði Inga.

Gagnrýndi hún meðal annars boðaða hækkun persónuafsláttar sem væri ekki nema prósentu umfram vísitöluhækkanir. Það dygði því ekki fyrir nema rúmum fimm hundruð krónum á mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert