Sá bjarmann frá svefnherberginu

Bærinn Víkur á Skaga. Skemman sem brann er vinstra megin …
Bærinn Víkur á Skaga. Skemman sem brann er vinstra megin við íbúðarhúsið. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skemma á bænum Víkum á Skaga brann til grunna í miklum eldsvoða í nótt. Tilkynnt var um eldinn um fjögurleytið og tók töluverðan tíma að ráða niðurlögum hans. Engan sakaði, hvorki menn né dýr.

Karen Helga R. Steinarsdóttir, bóndi í Víkum, varð vör við eldinn þegar hún vaknaði í nótt er rúmlega átta mánaða sonur hennar rumskaði. „Þá sá ég bara bjarmann frá eldinum út um svefnherbergisgluggann,“ segir Karen. Skemman hafi staðið í ljósum logum og þá þegar ljóst að hún væri ónýt sem og allt sem í henni var, m.a. vinnuvélar og fjöldi verkfæra.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki sinnti slökkviliðið á Skagaströnd slökkvistarfinu. Eldsupptök eru ókunn en rannsókn stendur yfir.

Bærinn Víkur er nyrsti bærinn í byggð í Húnavatnssýslu.

mbl.is/map.is

Logn í nótt

Skemman, sem var gerð upp fyrir nokkrum árum, stóð í nágrenni íbúðarhússins en engin hætta var á að eldur bærist í aðrar byggingar. Logn var í nótt og reykinn lagði út á sjó.

Karen hóf búskap í Víkum ásamt manni sínum, Jóni Helga Sigurgeirssyni, fyrir um tveimur árum. Hún segir að þrjár dráttarvélar hafi verið inni í skemmunni, sú yngsta frá árinu 2014. Ein vélanna var nýuppgerð og hafði mörgum vinnustundum verið varið í það verkefni að undanförnu. Þá var þar mikið af verkfærum af ýmsum toga. Í skemmunni var m.a. sagaður niður rekaviður. 

Eftir að Karen varð eldsins vör hringdi hún strax í neyðarlínuna. Hún segir slökkviliðið hafa verið komið á staðinn á innan við klukkutíma sem henni þykir stuttur tími þar sem Víkur eru afskekktur bær. Hún segir Jón Helga hafa farið að logandi skemmunni í nótt til að athuga með eina dráttarvélanna sem hafi oft staðið utan skemmunnar. Hins vegar hafi hann séð að hún var inni og orðin ónýt vegna eldsins.

Karen segir ljóst að tjónið hlaupi á milljónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert