Öryrkjabandalagið grípur til aðgerða

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Ljósmynd/ÖBÍ

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands samþykkti samhljóða á stjórnarfundi í gær að fela lögmanni sínum að hefja innheimtuaðgerðir gegn Tryggingastofnun ríkisins/íslenska ríkinu, vegna bótaflokksins sérstök framfærsluuppbót.

Í þessu felst að lögmanni ÖBÍ er heimilt að beita þeim innheimtuaðgerðum  sem nauðsynlegar eru til árangurs, þ.m.t. að höfða mál fyrir dómstólum ef þörf krefur.

Áður hafði Þuríður Harpa Sig­urðardótt­ir, formaður Öryrkja­banda­lags Íslands, greint frá því að ÖBÍ útilokaði ekki dómsmál vegna „krónu á móti krónu“ skerðingar.

„Af­nám skerðing­ar­inn­ar ger­ir fólki kleift, og veit­ir því hvata til að vinna. Það er stórund­ar­legt að þetta hafi ekki verið af­numið,“ sagði Þuríður Harpa í byrjun september. Einnig benti Þuríður á að sams kon­ar skerðing hefði verið af­num­in hjá eldri borg­ur­um fyr­ir nokkru. Hins veg­ar hefðu ör­orku­líf­eyr­isþegar verið skild­ir eft­ir. 

„Í þessu er fólgin mismunun. Frá 1. janúar 2017 hafa örorkulífeyrisþegar orðið af umtalsverðum fjármunum þegar litið er til sambærilegra hópa. Hjá mörgum þeirra getur skerðingin numið um 60.000 krónum á mánuði eða meira,“ kemur fram í tilkynningu frá ÖBÍ.

Enn fremur er talið að ríkissjóður taki með þessum hætti tæplega fjóra milljarða króna á ári úr vösum öryrkja. 

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands skorar á Alþingi að bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu og leiðrétta þá mismunun sem örorkulífeyrisþegar hafa orðið fyrir frá 1. janúar 2017.

mbl.is

Bloggað um fréttina