Dregur úr útbreiðslu ferðamannagistingar

2.737 Airbnb auglýsingar voru vegna húsnæðis í Reykjavík í lok …
2.737 Airbnb auglýsingar voru vegna húsnæðis í Reykjavík í lok ágúst, þar af 36,2% í Miðborginni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nokkuð virðist hafa dregið úr Airbnb-auglýsingum í Reykjavík frá því í lok febrúar á þessu ári. Þetta er meðal þess sem fram kemur í gögnum með úttekt skipulagsfulltrúa borgarinnar á fjölda íbúða í ferðamannagistingu.

Borgarfulltrúar  Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrirspurn á fundi skipulags- og samgönguráðs í ágúst þar sem óskað var yfirlits yfir fjölda íbúða í ferðamannagistingu í íbúðahverfum, sem og hversu margar íbúðir í miðborg Reykjavíkur, sem ætlaðar hafi verið fyrir gistingu, séu tómar.

Í svörum skipulagsfulltrúa sem kynnt voru á fundi nefndarinnar í gær, segir að því miður hafi opinber skráning á gististarfsemi í íbúðarhúsnæði ekki verið með besta móti. Umhverfis- og skipulagssvið hafi þó reglulega kortlagt gististaði á grundvelli gagna frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sem heldur utan um útgáfa rekstrarleyfa, og heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem gefur út starfsleyfi.

411 gististaðir skráðir sem heimagisting, þar sem leigudagar eru ekki …
411 gististaðir skráðir sem heimagisting, þar sem leigudagar eru ekki fleiri en 90 dagar á ári, og 239 eru skráðir sem heilsársgisting.

„Til skoðunar hefur verið að tengja gagnagrunna heilbrigðiseftirlits og mögulega sýslumanns við landupplýsingakerfi borgarinnar, þannig að upplýsingar um gististaðina birtist síuppfærðar í borgarvefsjá eða skipulagssjá,“ segir í svarinu. Með þessu móti yrði aðgengi upplýsinga um útbreiðslu gististaða innan íbúðarbyggðar aukið og mögulegt yrði að flokka gististaðina eftir því hvort um er að ræða heilsárs- eða um heimagistingu, sem er bundin við 90 daga.

Yfir 30% gististaða í miðborginni

Í fylgigögnum með svarinu kemur fram að 28. febrúar í ár voru 3.852 gististaðir auglýstir í gegnum Airbnb í Reykjavík. 30,9% gististaðanna voru í miðborginni, 21,3% voru í Vesturbænum, 14,3% í Hlíðunum og 14,2% í Laugardalnum, en mun minna í öðrum hverfum. 3. júlí voru 3.010 gististaðir auglýstir í borginni, þar af 35,8% í miðborginni. 7. ágúst sl. voru auglýsingarnar  2.844, þar af 36,8% í miðborginni og 30. ágúst var auglýsingafjöldinn kominn niður í 2.737, þar af 36,2% í miðborginni.

Samkvæmt tölum sýslumanns á meðfylgjandi korti eru 411 gististaðir skráðir sem heimagisting, þar sem leigudagar eru ekki fleiri en 90 dagar á ári, og 239 eru skráðir sem heilsársgisting. Þá hafi 244 gististaðir verið án 90 daga leyfa.

Skipulagsfulltrúi segir greiningu á umfangi ferðamannagistingar í íbúðarhúsnæði sem sé án leyfis einnig hafa farið fram, m.a. á skrifstofu borgarstjórnar. Slík greining sé hins vegar háð mörgum fyrirvörum þar sem oft sé stærð þess húsnæðis sem er til útleigu ekki skýr, né heldur hvort um sé að ræða heilsársgistingu, árstíðabundna útleigu eða íbúð sem sé leigð út endrum og eins. Þá sé á vefsvæðum á borð við Airbnb einnig mögulega skráður fjöldi íbúðarrýma sem aldrei hafi  verið skráð sem íbúðarhúsnæði, heldur sé um að ræða atvinnuhúsnæði sem breytt hafi verið í hótelíbúðir eða sambærilegt og því í raun ekki íbúðir sem horfið hafi af húsnæðismarkaði. „Það getur því verið vandasamt að meta heildaráhrif  „airbnb” á húsnæðismarkaðinn út frá slíkum greiningum,“ segir í svarinu.

Umhverfis- og skipulagssviði reyni engu að síður að vakta áhrif ferðmannagistingar á húsnæðismarkaðinn og þá sérstaklega áhrifin á íbúðarbyggð innan Hringbrautar, þar sem þau séu líklegust til að verða mest og bendi sú mæling til þess að hægt hafi á útbreiðslu ferðamannagistingar í íbúðarhúsnæði innan Hringbrautar.

28. febrúar í ár voru 3.852 gististaðir auglýstir í gegnum …
28. febrúar í ár voru 3.852 gististaðir auglýstir í gegnum Airbnb í Reykjavík. 30. ágúst var auglýsingafjöldinn kominn niður í 2.737.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert