Ríkið kaupi Vigur í Djúpi

Vigur í Djúpi er til sölu og margir hafa sýnt …
Vigur í Djúpi er til sölu og margir hafa sýnt kaupum áhuga. Sigurður Bogi Sævarsson

Eðlilegt er að ríkið kaupi eyjuna Vigur á Ísafjarðardjúpi sem nú er til sölu. Þetta segir Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi. Fjöldi jarða á Íslandi hefur að undanförnu verið seldur til erlendra fjárfesta, sem er áhyggjuefni og er þróun sem þarf að bregðast við.

Þarf gerjunartíma

Á það ekki síst við um náttúruperlur, staði sem eiga sér merka sögu, eru vinsælir meðal ferðamanna og svo framvegis. „Mér finnast öll rök hníga að því að ríkið kaupi Vigur. Þess eru mörg dæmi að ríki eða eftir atvikum sveitarfélög stígi inn í mál og kaupi eignir eða geri ráðstafanir þegar samfélagslegir hagsmunir krefjast,“ sagði Halla Signý í samtali við Morgunblaðið.

Fyrst vakti þingmaðurinn athygli á hugsanlegum kaupum ríkisins á Facebook-síðu sinni og hefur svo talað fyrir málinu fólks á meðal að undanförnu. Hún segir að hugmyndin hafi fengið almennt jákvæðar undirtektir. Lengra sé þetta þó ekki komið, enda þurfi svona mál alltaf nokkurn gerjunartíma.

Heimsókn er ævintýri

„Vigur er einstök náttúruperla. Þarna hefur sama fjölskyldan búið í langan tíma, fjórar kynslóðir, og hirt afar vel um staðinn. Heimsókn út í Vigur þangað sem eru reglulegar siglingar yfir sumarið er ævintýri, því þarna er einstakt fuglalíf og ferðaþjónusta sem núverandi ábúendur hafa byggt upp. Þarna koma allt að 10.000 manns á sumri hverju, en svo er spurning hversu aðgengileg eyjan verður þegar og ef nýir eigendur taka við,“ segir Halla Signý.

„Vigur skiptir okkur Vestfirðinga máli. Því væri eðlilegt að íslenska ríkið keypti eyjuna, tæki við keflinu og ræki þjónustu þar í þeirri mynd sem hún er í dag. Það væri verðug gjöf ríkisins til þjóðarinnar á fullveldisárinu. Sagan er líka auðlind. “

Í Vigur eru tvær friðlýstar byggingar sem báðar tilheyra húsasafni Þjóðminjasafnsins. Önnur þeirra er svonefnt Viktoríuhús; timburhús í klassískum stíl, reist um 1860. Um svipað leyti var hin friðlýsta byggingin í eynni reist, sem er vindknúin kornmylla.

Fyrirspurnir frá útlöndum

Í dag búa í Vigur þau Salvar Baldursson og Hugrún Magnúsdóttir kona hans, og starfrækja þar ferðaþjónsutuna, vitja um æðarvarp og eru með sauðfé. Þau hyggjast nú bregða búi og flytja í land. Tveir eigendur eru að Vigur: Salvar og Ingunn Sturludóttir.

Vigur er á skrá hjá Fasteignasölunni Borg í Reykjavík og segir Davíð Ólafsson fasteignasali marga vera áhugasama um kaup. „Margir hafa samband og frá útlöndum koma 3-4 fyrirspurnir í hverri viku, enda hafa ýmis erlend blöð sagt frá því að Vigur sé til sölu. Verðmiðinn á jörðinni er um 300 milljónir króna, lægra förum við ekki því þetta er einstakur staður og ævistarf heilu kynslóðanna liggur að baki. Þegar eyjan kom á skrá í sumar gáfum við okkur að salan gæti tekið allt að tvö ár, því þetta er flókið ferli og að mörgu að hyggja,“ segir Davíð.

"Spurning hversu aðgengileg eyjan verður þegar og ef nýir eigendur taka við,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir alþingismaður. Sigurður Bogi Sævarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert