Víkingaþorpið veldur málaferlum

Baltasar Kormákur, kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi, á ekki hlut að máli.
Baltasar Kormákur, kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi, á ekki hlut að máli. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er ekki aðili að þessu máli, ég vil að það komi fram. Ég átti þetta handrit upphaflega og réttinn að þessari mynd en þeir [26 Films] sem eiga þorpið eiga ekki neitt í myndinni lengur en þeir eru leigjendur að þessari jörð,“ segir Baltasar Kormákur í samtali við Morgunblaðið.

Baltasar vísar með þessu til umfjöllunar Morgunblaðsins í gær þar sem fjallað var um víkingaþorp á jörðinni Horn í Hornafirði. Víkingaþorpið var byggt árið 2009 sem leikmynd fyrir kvikmynd sem Baltasar ætlaði að leikstýra. Tökur áttu upphaflega að hefjast árið 2010 en framleiðsla myndarinnar hefur ekki enn hafist.

„Ég hef í raun enga aðkomu að þessu setti. Ég á þetta ekki og er ekki aðili að samningnum við landeigandann. En af því ég þekki málið vel og þetta tengist mér þá vil ég koma þessu á framfæri,“ bætir Baltasar við.

Landeigandinn, Ómar Antonsson bóndi, er ósáttur með þann tíma sem tekið hefur að hefja tökur og sagði við Morgunblaðið í gær að þetta væri orðið að „hálfgerðu leiðindamáli“. Ómar hefur stefnt fyrirtækinu 26 Films vegna ógreiddar leigu og óttast að leikmyndin skapi slysahættu vegna þess að viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Baltasar telur að umfjöllun Morgunblaðsins í gær hafi verið einhliða og segir að það sé önnur hlið á málinu.

„Þannig er mál með vexti að 2009 er þetta leigt. Eftir miklar samningaviðræður 2014 hækkar leigan um 35% eftir erfiðar samningalotur en hann [landeigandinn] vildi hækka miklu meira. Svo 2016 fer hann fram á 65% hækkun á leigunni og það voru menn ekki sáttir við. Það er búið að hækka leiguna um 150% frá því að farið var af stað og þeir [26 Films] eru alls ekki sáttir við það. Það hljóta allir að sjá að 150% hækkun er ekki samkvæmt verðlagi. Hann er að nýta sér aðstöðu sína,“ segir Baltasar og bætir við:

„Það var peningurinn fyrir að leigja þetta meðan engin starfsemi væri í gangi. Síðan er miklu hærra gjald þegar myndin verður tekin upp og hann [landeigandinn] er búinn að fara fram á þreföldun á upphaflegu gjaldi, fyrir þann tíma sem myndin verður tekin upp. Þetta eiga þessir erlendu aðilar [26 Films] mjög erfitt með að sætta sig við og þess vegna standa yfir málaferli. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið greitt er sú að það komst ekki á samkomulag um leiguna.“

26 Films hefur gagnstefnt Ómari fyrir að selja ferðamönnum aðgang að víkingaþorpinu og hafa af því umtalsverðar tekjur. Þeir segja það stranglega bannað enda sé þorpið leikmynd og allur aðgangur sé bannaður. „Það er búið að gagnstefna Ómari fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína með því að hafa selt inn á settið í mörg ár. Það eru heilmiklar sannanir fyrir því og ekki nóg með það heldur reisti hann svo kaffihús sem heitir Viking Cafe til að þjónusta þessu starfsemi sína. Þetta hafa framleiðendurnir alls ekki sætt sig við því þeir eru að leigja og borga fyrir settið meðan hann misnotar það,“ segir Baltasar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert