„Kemur okkur á óvart eins og öðrum“

Sú ákvörðun Norsk Hydro að hætta við kaupin á álverinu …
Sú ákvörðun Norsk Hydro að hætta við kaupin á álverinu í Straumsvík kom bæjarstjóra Hafnafjarðar á óvart. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ákvörðun Norsk Hydro að hætta við kaupin á álverinu í Straumsvík kom  bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði á óvart að sögn bæjarstjórans, Rósu Guðbjartsdóttur.

Greint var frá því í hádeginu að Norsk Hydro og Rio Tinto hefðu skrifað undir samkomulag um að Norsk Hydro hætti við kaupin á álverið, sem og kaup á 53% hlut Rio Tinto í hol­lensku skaut­verk­smiðjunni Alum­ini­um & Chemie Rotter­dam B.V. („Aluchemie“), og 50% hlut í sænsku ál-flú­oríð verk­smiðjunni Aluflu­or AB.

Var ástæðan sögð sá langi tími sem það taki að fá samþykki sam­keppn­is­yf­ir­valda fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins.

„Þetta kemur okkur á óvart eins og öðrum, en ég vona og geri ráð fyrir að þetta hafi ekki áhrif á starfsemi fyrirtækisins,“ segir Rósa. „Við verðum svo að sjá hvernig málin þróast.“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnafjarðar kveðst vona að ákvörðunin hafi ekki …
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnafjarðar kveðst vona að ákvörðunin hafi ekki áhrif á starfsemina í Straumsvík.

Hún segir forsvarsmenn Rio Tinto hljóta að bregðast við þessari stöðu sem komin er upp og gerir ráð fyrir að Hafnafjarðarbær muni óska svara frá fyrirtækinu. „Við munum fylgjast mjög náið með þessu máli og munum óska eftir upplýsingum um framhaldið,“ segir hún.

Þá sé líklegt að farið verði yfir þessa stöðu fyrir næsta bæjarráðsfund, sem verður haldinn eftir hálfan mánuð, en Rósa kveðst engu að síður vænta þess að þetta hafi engin áhrif á starfsemina í Straumsvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert