„Það er sól úti, látum vera sól í hjarta okkar“

Það var eðlilega mikill samhljómur í málflutningi lögmannanna.
Það var eðlilega mikill samhljómur í málflutningi lögmannanna. mbl.is/Hari

„Það er sól úti, látum vera sól í hjarta okkar,“ sagði Guðjón Ólafur Jónsson, lögmaður Alberts Klahn Skaftasonar, við lok málflutnings síns í endurupptöku á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem tekin var fyrir í Hæstarétti gær og í dag. Þessi setning fangar ágætlega andrúmsloftið í dómsalnum, en skynja mátti að flestir væru þangað komnir með von í brjósti; aðstandendur, lögmenn og aðrir. Von um réttlæti og bjartari tíð. Allir vilja það sama. Hreinsa nöfn þeirra einstaklinga sem sakfelldir voru máli þar sem sönnunargögn voru ekki til staðar, pyntingar voru notaðar og játningar hafa verið metnar falskar og óáreiðanlegar. Stærsta og umtalaðasta sakamáli Íslandssögunnar sem á sér enga hliðstæðu og hefur fylgt þjóðinni í 44 ár. 

Albert, skjólstæðingur Guðjóns, var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa hjálpað til við að flytja lík Guðmundar Einarssonar, fyrst í janúar árið 1974 og svo aftur um sumarið sama ár, þegar líkamsleifar hans áttu að hafa verið færðar til. Honum var einnig gefið að sök að hafa tálmað rannsókn málsins. Guðjón krefst þess að skjólstæðingur hans verði sýknaður í málinu enda væri ljóst að meðákærðu, Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Júlíusson og Tryggvi Rúnar Leifsson, væru saklausir af því að hafa banað Guðmundi. Albert væri því án efa saklaus af því að hafa hjálpað til við að flytja líkið.

Getur ekki unnið stærri sigur en að vera sýknaður

Tveir lögmenn fluttu mál sitt í dag, en Jón Magnússon, tók við af Guðjóni og flutti mál fyrir hönd fjölskyldu Tryggva Rúnars. Í gær fór fram málflutningur af hálfu lögmanna hinna þriggja dómfelldu í málinu. Krafa allra er að skjólstæðingar þeirra verði sýknaðir. Það er reyndar einnig krafa ákæruvaldsins, sem gerir málið afar sérstakt. Lögmenn Sævars og Guðjóns Skarphéðinssonar, gera þó einnig kröfu um að skjólstæðingar þeirra verði lýstir saklausir. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristjáns Viðars, sagði andsvari sínu það ekki venju að dómstólar lýstu menn saklausa, en sagðist þó ekki andsnúinn því að það yrði gert. Í sýknu fælist alltaf yfirlýsing um sakleysi.

Flestir í réttarsalnum virtust hafa von í brjósti.
Flestir í réttarsalnum virtust hafa von í brjósti. mbl.is/​Hari

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, sagði að þó að ekki væri venja að lýsa menn saklausa þá væri þetta mál allt öðruvísi en öll önnur mál sem flutt hefðu verið fyrir dómstólum fyrr og síðar. Menn hefðu verið pyntaðir og notaðar aðferðir sem þekkjast í verstu einræðisríkjum til að ná fram niðurstöðu. Ragnar spurði hvernig væri bara hægt að sýkna mann en ekki lýsa saklausan þegar fullkomlega sannað væri að hann hefði ekki verið á vettvangi.

Þrátt fyrir að lögmennirnir væru ekki sammála um þetta atriði var eðlilega mikill samhljómur með þeim að öðru leyti. Allir telja þeir mikilvægt að mistök þau sem áttu stað við rannsókn málsins á sínum tíma og sakfelling í Hæstarétti verði leiðrétt. Það væri mikið velferðarmál fyrir réttarríkið á Íslandi og gæti aukið virðingu fyrir dómstólum í landinu. Það yrði að skilja við fortíð málsins.

Toyota varð að Volkswagen Bjöllu

Í málflutningi sínum sagði lögmaður Alberts engin haldbær sönnunargögn fyrir því að hann hefði aðstoðað við að flytja lík Guðmundar á sínum tíma. Enda hefði framburðir breyst eftir því sem staðreyndir komu í ljós. Guðjón tiltók sérstaklega atriði þar sem bíll föður Alberts, sem hann hafði til umráða, reyndist vera Volkswagen Bjalla en ekki Toyota líkt og fram hafði komið við yfirheyrslur. Tegund bílsins skipti höfuðmáli fyrir trúverðugleika frásagnarinnar, enda sagðist Albert hafa séð í baksýnisspegli bílsins þegar meðákærðu í málinu komu líki Guðmundar fyrir í farangursgeymslunni. Farangursgeymsla Bjöllu var hins vegar að framan og því ómögulegt að atburðarásin hafi verið eins og henni var upphaflega lýst. Þá voru fleiri atriði sem stóðust ekki skoðun. Sími sem átti að hafa verið notaður til að hringja í Albert reyndist hafa verið lokaður og þá kom í ljós að mikið vonskuveður var á þeim tíma sem líkið átti að hafa verið flutt út í hraun og vegir algjörlega ófærir Volkswagen Bjöllu.

Guðjón vakti einnig athygli á óvenjulegum rannsóknaraðferðum, en til að aðstoða Albert við að muna atburðina var notast við sefjun og dáleiðslu. Sefjun væri til þess fallin að hafa áhrif á skynjun sem hefði áhrif á trúverðugleika. Benti hann á að í skýrslu starfshóps um málið kæmi fram að það væri mat sálfræðinga að það væri hafið yfir allan skynsamlega vafa að framburður Alberts, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi væri óáreiðanlegur. Það hvað hann játaði fljótt miðað við hina dómfelldu í málinu sýni hvað hann hafði takmarkaðu trú á vinum sínum, gæfi til kynna lágt sjálfsmat hans, undanlátssemi og skort á gagnrýni.

Hæstiréttur hefur nú fjórar vikur til úrskurða í málinu, en líkt og áður sagði er sérstakt að bæði ákæruvald og verjendur fari fram á sýknu. Jón Steinar sagði í málflutningi sínum að Hæstiréttur ætti ekki annan kost en að fallast á sýknukröfu enda væri dómstólnum óheimilt að fara út fyrir kröfur málsaðila. Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari í málinu, sagði  engu að síður í samtali við mbl.is áður en málflutningur hófst að það væri á valdi Hæstaréttar hvort sýknukrafan yrði tekin til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert