Mál geta ekki „grasserað“ undir yfirborðinu

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Mér finnst mikilvægt að við séum ekki sofandi þegar svona mál koma upp og að við tökum á þeim af festu,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, um uppsögn framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kemur saman til aukafundar í dag vegna málsins.

Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, var sagt upp störfum í fyrradag vegna óviðeigandi framkomu gagnvart samstarfsfólki. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, sagði í gær að sér væri brugðið eftir eitt óviðeigandi tilvik.

„Það skiptir miklu máli að við stöndum við það sem við einbeittum okkur að þegar MeToo-byltingin kom upp á yfirborðið,“ segir Þórdís Lóa og bætir við að þá hafi fólk séð hvernig svona mál geti grasserað undir yfirborðinu.

„Nú getum við ekki lengur búið við það. Óháð því hvaða fyrirtæki, félagasamtök eða stofnun á í hlut skuldum við okkur sjálfum að taka ákveðið, af virðingu og sátt á málum.“

Þórdís Lóa segist vera ánægð með viðbrögð Orku náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur í málinu. Aðspurð segist hún óttast að öðruvísi hefði verið tekið á viðlíka máli fyrir einhverjum árum.

„Ég er svolítið hrædd um það. Mig langar til að segja að svo hefði ekki verið en óttast að það hefði verið raunveruleikinn. Þegar MeToo kemur upp þá koma alls kyns hlutir upp á yfirborðið sem er búið að grafa undir teppi. Hlutir sem við trúðum varla að gerðust og ég held að þjóðin hafi öll verið slegin þegar allir hóparnir komu fram,“ segir Þórdís Lóa og bætir við að þótt málin séu komin upp á yfirborðið þá sé enn unnið í þeim.

„Þetta kláraðist ekki þarna. Ég kalla alla stjórnendur til ábyrgðar og allar stjórnir landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert