Norsk Hydro hætt við álverskaupin

Norsk Hydro mun ekki kaupa álver Rio Tinto í Straumsvík.
Norsk Hydro mun ekki kaupa álver Rio Tinto í Straumsvík. mbl.isÓmar Óskarsson

Norsk Hydro er hætt við að taka yfir álverið í Straumsvík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér nú í hádeginu. Þar segir að Norsk Hydro og Rio Tinto hafi skrifað undir samkomulag um að Norsk Hydro hætti við að taka yfir álverið í Straumsvík.

Greint var frá því í mars á þessu ári að norski álfram­leiðand­inn Norsk Hydro ASA hefði gert skuld­bind­andi til­boð um kaup á öllu út­gefnu hluta­fé í ál­ver­inu í Straums­vík (ISAL) af Rio Tinto og að tilboðið tæki einnig til hol­lensku skaut­verk­smiðjunn­ar Aluchemie og sænsku ál-flú­oríð verk­smiðjunn­ar Aluflu­or.

Um var að ræða skuld­bind­andi til­boð um að kaupa ál­verk­smiðju Rio Tinto, Rio Tinto á Íslandi hf. („ISAL“), 53% hlut Rio Tinto í hol­lensku skaut­verk­smiðjunni Alum­ini­um & Chemie Rotter­dam B.V. („Aluchemie“), og 50% hlut í sænsku ál-flú­oríð verk­smiðjunni Aluflu­or AB („Aluflu­or“) fyr­ir 345 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala, með fyr­ir­vara um aðlög­un kaup­verðs eft­ir lúkn­ingu viðskipt­anna.

Segir í tilkynningunni að einnig verði hætt við kaupin á Aluchemie og Alufluor.

Samkomulag um kaupin var svo undirritað í byrjun júní á þessu ári í kjölfar funda með starfsmönnum Rio Tinto í Frakklandi og Hollandi. Kaupin voru engu að síður enn háð fjölda skilmála, að því er fram kemur í tilkynningunni, m.a. samþykki íslenska samkeppniseftirlitsins, íslenskra stjórnvalda og samkeppnisaðila.

Upphaflega var búist við að kaupferlinu yrði lokið á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það hefur hins vegar tekið lengri tíma en talið var að fá samþykki samkeppnisyfirvalda framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og í kjölfar þess fór Norsk Hydro fram á að rifta tilboðinu og hefur sú beiðni nú verið samþykkt.

Norsk Hydro mun þó eftir sem áður eiga 46,7% hlut sinn í Aluchemie.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert