Útboð fyrir opnum tjöldum varla ætlunin

Kristján veltir meðal annars fyrir sér hvort áhrifin geti orðið …
Kristján veltir meðal annars fyrir sér hvort áhrifin geti orðið sú að WOW þurfi að endurskoða fyrirhugaða útrás til Indlands. mbl.is/Árni Sæberg

„Upphaflega var lagt upp með að ná inn allt að 12 milljörðum króna og það er spurning hvaða áhrif það hefur ef ekki næst inn meira fé,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is, í svari sínu við fyrirspurn mbl.is vegna tíðinda frá WOW air um að skuldabréfaútgáfu lyki á þriðjudag, og að nú lægi fyrir að lágmarki yrði náð.

Lágmarkið sem WOW air setti vegna útgáfunnar voru 50 milljónir evra, sem jafngildir um 6,4 milljörðum íslenskra króna. Kristján veltir meðal annars fyrir sér hvort áhrifin geti orðið sú að WOW þurfi að endurskoða fyrirhugaða útrás til Indlands og eins hvort sjóðurinn nægi til að koma félaginu í gegn um veturinn, sem gæti orðið þungur í ljósi þess að eldsneyti er dýrt og fargjöld ennþá lág.

Hvað sem því líður segir Kristján að rúmir sex milljarðar séu í höfn og að fréttirnar hljóti að vera mikill léttir fyrir starfsfólk WOW og alla sem eiga flugmiða með félaginu. „Það verður áhugavert að sjá hvort fleiri fjárfestar taki þátt í útboðinu.“

Pressa útskýri misvísandi ummæli Skúla

„Þetta skuldabréfaútboð hefur farið fram fyrir nærri opnum tjöldum í heilan mánuð og það getur varla hafa verið ætlunin,“ segir Kristján og að pressan hafi verið mikil, sem sjáist einnig á misvísandi ummælum frá Skúla Mogensen forstjóra um gang mála. Þá segir Kristján ekki útilokað að samkeppnisaðilar WOW hafi greint veikleika félagsins í þeim ítarlegu upplýsingum sem birtust um reksturinn og framtíðarplön fyrirtækisins í útboðskynningunni.

Að lokum segir Kristján það verða spennandi að heyra hvort það fjölgi í eigendahópi flugfélagsins. „Skúli hefur talað um kostina við að fá inn meðeiganda og kannski er sá aðili fundinn núna. Við fáum þá svar við því á þriðjudag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert