Efstu mætast í 1. umferð dagsins

Katrín Jakobsdóttir lék fyrsta leikinn fyrir Batel.
Katrín Jakobsdóttir lék fyrsta leikinn fyrir Batel. Ljósmynd/Aðsend

Stórmeistararnir Bragi Þorfinnsson og Hannes Stefánsson eru efstir og jafnir á Afmælismóti Hróksins sem hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Báðir eru þeir með fjóra vinninga eftir jafnmargar umferðir.

Fimmta umferð mótsins hefst svo klukkan 13 í dag, en þar munu Bragi og Hannes einmitt mætast, að því er segir í tilkynningu frá Hróknum.

Þröstur Þórhallsson og Jón Viktor Gunnarsson eru í 3. og 4. sæti eftir fyrri keppnisdag með 3,5 vinninga. Í 5. til 10. sæti eru hinn ungi Dagur Andri Friðgeirsson, heiðursgesturinn Regina Pokorna, Ingvar Þór Jóhannesson, Dagur Ragnarsson, Guðmundur Kjartansson og Helgi Ólafsson. Öll eru þau með þrjá vinninga.

Börnin eru á Íslandi á vegum Kalak, vinafélags Íslands og …
Börnin eru á Íslandi á vegum Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi. Ljósmynd/Hrókurinn

Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins frá stofnun 1998, setti mótið og bauð gesti og keppendur velkomna og sagði síðustu 20 ár ævintýri líkust. Að lokinni ræðu hans söng grænlenskur barnahópur tvö lög, en Hróksmenn hafa í gegn um tíðina stuðlað að víðtæku landnámi skákarinnar í Grænlandi.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, flutti setningarávarp mótsins áður en fyrsta umferð hófst, en á efsta borði mættust hin 11 ára gamla Batel Goitom Haile, ein efnilegasta skákstúlka landsins, og Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga, heiðursborgari Reykvíkinga og fyrrverandi forseti Alþjóða skáksambandsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lék fyrsta leikinn fyrir Batel og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, lék fyrsta leik fyrir Friðrik. Skák þeirra var spennandi og lauk með jafntefli, og voru úrslitin ein af fjölmörgum óvæntum úrslitum í Ráðhúsinu í gær.

Vigdís Finnbogadóttir lék fyrsta leik fyrir Friðrik Ólafsson.
Vigdís Finnbogadóttir lék fyrsta leik fyrir Friðrik Ólafsson. Ljósmynd/Hrókurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert