„Illskiljanlegt“ að Isavia skekki samkeppni

Aðspurður segir Bogi Icelandair ekki skulda Isavia lendingargjöld.
Aðspurður segir Bogi Icelandair ekki skulda Isavia lendingargjöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfandi forstjóri Icelandair Group segir illskiljanlegt ef rétt reynist að Isavia, fyrirtæki í opinberri eigu, taki þátt í að fjármagna taprekstur flugfélagsins WOW air og skekkja þar með samkeppnisstöðu á markaðnum.

„Af rekstrartölum WOW að dæma fyrir árin 2017 og 2018 er ljóst að fyrirtækið er að selja flugsæti langt undir kostnaðarverði. Það er öllum ljóst að slíkur rekstur er ekki sjálfbær,“ segir Bogi Nils Bogason í svari sínu við fyrirspurn mbl.is, þar sem leitað var viðbragða hans við fregnum af því að WOW air skuldi Isavia hátt í tvo milljarða í lendingarkostnað.

Bogi Nils Bogason.
Bogi Nils Bogason. Ljósmynd/Icelandair Group

Bogi segir að verið sé að búa til framtíðarvæntingar hjá neytendum og fleiri hagsmunaaðilum sem ólíklegt sé að gangi eftir. „Það er mjög óheppilegt fyrir íslensk efnahagslíf.“

„Ef rétt er að Isavia, fyrirtæki í opinberri eigu, sé að taka þátt í því að fjármagna framangreindan taprekstur og þar með skekkja samkeppnisstöðu á þessum markaði þá er það illskiljanlegt. Við höfum á undanförnum árum átt mjög gott samstarf við Isavia og þar er öflugt og skynsamt starfsfólk og það kæmi mér því mjög á óvart ef rétt reynist.“

Aðspurður segir Bogi Icelandair ekki skulda Isavia lendingargjöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina