Viðsnúningurinn á Íslandi afrek

Poul M. Thomas, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundi Seðlabankans í …
Poul M. Thomas, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundi Seðlabankans í Hörpu í dag. Haraldur Jónasson/Hari

Aðalástæða þess að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda fyrir Ísland bar tilætlaðan árangur var sterkur og breiður pólitískur stuðningur á Íslandi til að hrinda áætluninni í framkvæmd og innleiða hana.

Þetta sagði Poul M. Thomsen, núverandi framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ræðu sinni á fyrirlestri í boði Seðlabanka Íslands í Hörpu í dag um árangur við að koma á stöðugleika hér á landi eftir efnahagshrunið árið 2008 og hlutverk sjóðsins í því. Poul var yfirmaður Íslandsmála hjá sjóðnum við hrunið, en í dag eru tíu ár liðin frá falli bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers sem markaði upphaf hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu.

Til landsins með 24 tíma fyrirvara

„Það er viðeigandi að ég flytji þetta erindi hér á Íslandi, í ríki sem var eitt þeirra fyrstu sem varð fyrir þeirri fjármálalegu flóðbylgju sem síðan skall á,“ sagði Poul sem rakti aðkomu AGS að efnahagsmálefnum Íslands í kjölfar hrunsins.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Poul M. Thomas, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Haraldur Jónasson/Hari

„Við héldum til Íslands með 24 klukkustunda fyrirvara, en áður en við komum hafði íslenskur gjaldeyrismarkaður hrunið og krónan var í frjálsu falli. Þegar höfðu verið settar miklar hömlur á gjaldeyris svo flytja mætti inn nauðsynjavörur - öruggt framboð af mat og lyfjum var ekki fyllilega tryggt,“ sagði hann. „Það sem við stóðum frammi fyrir var ekki aðeins ein dýpsta efnahagskreppa samtímans, heldur kreppa sem setti í hættu landsframleiðslu og velferð fólks í hættu, í ljósi þess að hagkerfið reiddi sig mjög á innflutning og erlendan gjaldeyri,“ bætti Poul við.

Aðkallandi verkefni sett í forgang

19. nóvember samþykkti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að ráðast í það sem að sögn Pouls, er enn viðamesta efnahagsáætlun sjóðsins með hliðsjón af stærð hagkerfis í viðkomandi landi. Stærðin hafi nemið u.þ.b. 18% vergrar landsframleiðslu hér á landi, eða sem nam 1.190% af framlagi Íslands í sjóðinn. Um helmingur þess fjár sem til kæmi skyldi greiddur út í einu lagi, fyrirfram.

Poul rakti þrjú atriði sem hann telur að hafi stuðlað sérstaklega að því að efnahagsáætlunin gekk eftir. Í fyrsta lagi sagði hann að skilyrðasetning hafi verið skilgreind og sveigjanleg. Einblínt hafi verið á að ráðast fyrst í mest aðkallandi verkefni sem Ísland stæði frammi fyrir.

Gestir á fundi Seðlabankans í Hörpu.
Gestir á fundi Seðlabankans í Hörpu. Haraldur Jónasson/Hari

„Það kom á óvart að í samanburði við áætlanir fyrir önnur lönd á þessum tíma fól áætlun Íslands ekki í sér nein kerfislæg skilyrði, önnur en þau er vörðuðu fjármálaaga og endurreisn fjármálakerfisins,“ sagði Poul og nefndi að fljótlega hafi sendinefnd AGS komist að því að íslenskur efnahagur hefði sögulega séð getað jafnað sig fljótt á áföllum, ekki síst vegna sveigjanleika vinnumarkaðar hér á landi.

Paul nefndi að ákveðið hefði verið að einblína á þrjú verkefni í upphafi: Að ná aftur fram stöðugleika í gjaldeyrismálum, að endurbyggja bankakerfið og að bregðast við gífurlegum tekjuhalla íslenska ríkisins í kjölfar hrunsins. „Í því skyni að vinna verkið hratt, einblíndum við í raun aðeins á fyrsta þáttinn í upphafi, að ná fram stöðugleika í gjaldeyrismálum,“ sagði Paul. „Ég stend í trú um að árangur okkar sé að miklu leyti því að þakka, að unnið hafi verið hratt og sveigjanlega,“ sagði hann.

Óvenjuleg nálgun á vandann

„Við mátum það sem svo að beinn fjárhagslegur stuðningur við fjármálageirann myndi kosta skattgreiðendur um 75% af vergri landsframleiðslu, þrátt fyrir aðgerðir til að lágmarka slíkan kostnað. Að teknu tilliti til samdráttar mátum við að skuldir íslenska ríkisins myndu hækka úr 29% vergrar landsframleiðslu í 109%,“ sagði Poul. „Enginn vafi var um að gríðarlega hagræðingu þyrfti til lengri tíma til að lækka skuldir,“ sagði hann.

„Fyrsta árið ákváðum við að leyfa efnahagslegum stöðugleikaþáttum að verka. Þegar eftirspurn á markaði hrynur er ekki ráðlegt að stíga á bremsurnar í ríkisútgjöldum eða hækka skatta. Þess vegna var hallanum leyft að verða um 14% af vergri landsframleiðslu árið 2009,“ sagði Poul.

Gestir á fundi Seðlabankans í Hörpu.
Gestir á fundi Seðlabankans í Hörpu. Haraldur Jónasson/Hari

„Í Washington lyftu menn brúnum þegar við leyfðum ekki aðeins sjálfvirkum sveiflujörnurum að vinna í friði, heldur gáfum ekki til kynna hvaða fjárhagslegu aðgerða yrði gripið til þegar annað árið gengi í garð. Við biðum með að ákveða þetta þar til við fyrstu samantekt á árangri aðgerðaáætlunarinnar,“ sagði Poul og útskýrði að ef ráðist hefði verið í að ákveða þetta strax í upphafi, hefði dregist mjög að afla fjármagns til að standa undir efnahagsáætluninni, en heildarlánsfjármagnið nam á sínum tíma um 750 milljörðum króna.

„Þessi ákvörðun var innblásin af trú okkar á að það væri mikill pólitískur vilji til að ráðast í nauðsynlega hagræðingu. Þetta er annað dæmi ummikilvægi sterks fordæmis íslenskra stjórnvalda,“ sagði hann. „Ég trúi því að árangur af efnahagsáætluninni megi ekki aðeins þakka því að við komum í veg fyrir áfall í upphafi með því að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum að vinna sitt verk, heldur einnig því að Ísland hafði tíma til að þróa áætlun um fjármálin með umræðum og skoðanaskiptum um hana þar sem hún var ekki unnin undir tímapressu,“ sagði Poul.

Gjaldeyrishöft ekki lengur „tabú“

Þriðji þátturinn sem Poul nefndi voru gjaldeyrishöftin sem þegar höfðu tekið gildi þegar sendinefnd AGS kom hingað til lands og nefndi að hefðu verið deiluefni, líkt og kunnugt væri.

„En deiluefnið var ekki gjaldeyrishöftin sem slík, heldur sú staðreynd að efnahagsáætlunin sem við kynntum stjórn AGS gerði ekki ráð fyrir að þeim yrði aflétt, heldur að þau yrðu órjúfanlegur hluti áætlunarinnar án þess að aflétting þeirra væri tímasett,“ sagði hann. „Ég veit að margir telja að efnahagslegri velferð Íslands hefði verið betur borgið hefðum við aflétt höftunum þegar áætlunin tók gildi. Ég tilheyri ekki þeim hópi og í dag deila menn á alþjóðavísu ekki um slík höft þegar ófremdarástand ríkir í efnahagsmálum,“ sagði Poul.

Gestir á fundi Seðlabankans í Hörpu.
Gestir á fundi Seðlabankans í Hörpu. Haraldur Jónasson/Hari

„Árangur af gjaldeyrishöftunum á Íslandi hefur hjálpað til við það að opna augu fyrir notum þeirra á alþjóðavísu. Gjaldeyrishöft eru ekki lengur tabú og nú viðurkennd á heimsvísu sem hluti af verkfærakistunni þegar kreppir að,“ sagði Poul.

Mikið afrek á Íslandi

Að lokum minntist hann á vinnu sem fram fór árið 2016 við að meta beinan kostnað ríkisins af efnahagskreppunni og endurheimt kostnaðarins. Niðurstaðan var að endurheimtin næmi um 43% af vergri landsframleiðslu í upphafi árs 2016. „Með öðrum orðum fór endurheimtin fram úr beinum kostnaði af fjárhagsstuðningi ríkisins, um 9% af vergri landsframleiðslu. Þetta er mikið afrek að mínu mati,“ sagði Poul. „Fá ríki geta státað af þessu, en útreikningar sýna að Bandaríkin séu eitt þeirra,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert