Hefja uppbyggingu háskólagarða við HR

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Áætlað er að fyrsta skóflustunga að nýjum háskólagörðum Háskólans í Reykjavík verði tekin nú í komandi viku og samhliða því hefjist framkvæmdir á fyrsta reit af fjórum. Byggja á 125 íbúðir í þessum fyrsta áfanga, en samtals verða 390 íbúðir á reitunum fjórum og þjónustukjarni fyrir háskólasamfélagið.

„Það er mikil tilhlökkun með að komast af stað með fyrsta áfanga og svo verður haldið áfram og horft til næstu reita,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Garðarnir verða reknir í gegnum sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni.

Háskólagarðarnir verða á fjórum reitum við Nauthólsveg, gegnt skrifstofum Isavia …
Háskólagarðarnir verða á fjórum reitum við Nauthólsveg, gegnt skrifstofum Isavia og flugturninum við Reykjavíkurflugvöll. Reitirnir tveir sem eru næst Valssvæðinu og á móti Hótel Natura eru ekki á vegum háskólagarðanna. Teikning/Kanon arkitektar

Teknar í gagnið fyrir haustið 2020

Ari segir að gangi allt eftir áætlun verði íbúðirnar í þessum fyrsta áfanga tilbúnar fyrir skólaárið 2020. Í millitíðinni á hann von á að hafist verði handa við byggingu íbúða á næstu tveimur reitum sem muni þá verða teknir í notkun í framhaldi af fyrsta reitnum.

Samtals verða 390 íbúðir á reitunum fjórum og þjónustukjarni fyrir …
Samtals verða 390 íbúðir á reitunum fjórum og þjónustukjarni fyrir háskólasamfélagið. mbl.is/Eggert

Fjórði reiturinn verður svo undir svokallaðan þjónustukjarna, en Ari segir að það sé sá reitur sem sé næst háskólanum og þar af leiðandi aðflugslínu á Reykjavíkurflugvelli. Vegna þess séu þar meiri hæðartakmarkanir. Verður reynt að nota þann reit undir þjónustu sem nýtast bæði íbúum á hinum þremur reitunum sem og öðrum sem sækja í háskólasamfélagið og háskólann.

Verða 25 upp í 90 fermetrar

Íbúðir í þessum fyrsta áfanga verða á bilinu 25 upp í tæpa 90 fermetra. Segir Ari að horft sé til þess að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda. Minnstu íbúðirnar verða fyrir einstaklinga og þær stærri fyrir pör og fjölskyldur. Segir hann að allar íbúðir verði með eigið baðherbergi og eldunaraðstöðu, en að þvottarými verði sameiginleg. „Við munum horfa til þess að nýta plássið þannig að íbúðirnar nýtist námsmönnum sem best,“ segir hann.

Reitirnir sem um ræðir bera númerin A, B, C og …
Reitirnir sem um ræðir bera númerin A, B, C og D og hefjast framkvæmdir nú á næstunni við reit A. Hinir reitirnir munu svo fylgja í kjölfarið, en á D reit verður svokallaður þjónustukjarni á meðan reitir A, B og C verða fyrir íbúðarhúsnæði. Teikning/Kanon arkitektar

Heildarstærð húsnæðis á þessum fyrsta reit er um 6 þúsund fermetrar og nemur fjárfestingin um 2,5 milljörðum. Notast er við stofnfjárframlög ríkis og sveitarfélags fyrir byggingu á almennum íbúðum, en það framlag nemur samkvæmt lögum 18% frá ríki og 12% frá sveitarfélagi. Ari segir að fjármögnun sé að öðru leyti frá fjármálastofnunum.

Íbúðirnar í fyrsta áfanga eiga að vera tilbúnar fyrir skólaárið …
Íbúðirnar í fyrsta áfanga eiga að vera tilbúnar fyrir skólaárið 2020.

Samningar um framkvæmdir og fjármögnun í höfn

Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í síðustu viku kom fram að byggingarfulltrúi gerði ekki skipulagslegar athugasemdir við væntanlegar framkvæmdir, en hins vegar voru taldar upp fjórar minni háttar athugasemdir sem þarf að ljúka áður en leyfi fæst fyrir byggingunni.

Ari segir að nú sé unnið að lagfæringum, en að það muni líklega ganga mjög hratt fyrir sig og sem fyrr segir vonast hann til að fyrsta skóflustunga verði tekin strax í komandi viku. „Um leið verður allt tilbúið til að hefja framkvæmdir,“ segir hann og bætir við að samningar fyrir framkvæmdir og fjármögnun séu frágengnir.

Rekið án hagnaðarsjónarmiða

„Það er gleðiefni að vera komin á þennan stað. Við vitum alveg hvað það hefur verið erfitt fyrir nemendur að finna húsnæði sem hentar og er hagkvæmt. Þetta er okkar leið til að koma til móts við þær þarfir,“ segir Ari. Leiguverð hefur enn ekki verið ákveðið, en Ari segir að þar sem félagið sé rekið án hagnaðarsjónarmiða muni kostnaðurinn við bygginguna ráða leiguverði. „Við viljum láta það vera eins hagstætt og hægt er,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert