Jóhanna í NYT: Gefið konum tækifæri

Jóhanna Sigurðardóttir skrifar skoðanagrein sem birtist í New York Times …
Jóhanna Sigurðardóttir skrifar skoðanagrein sem birtist í New York Times í dag. mbl.is/Golli

„Það er full ástæða til þess að velta því alvarlega fyrir sér hvernig hlutirnir myndu breytast ef konur og karlar mönnuðu valdastöður heimsins til jafns um heim allan,“ skrifar Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, í skoðanagrein í New York Times í dag.

Grein Jóhönnu fjallar um jafnrétti kynjanna en í henni segir Jóhanna meðal annars að út frá 35 ára reynslu sinni í íslenskum stjórnmálum hafi hún dregið þá ályktun að konur séu almennt betri en karlar í að tryggja sanngirni í samfélaginu.

Sem dæmi um þetta lýsir Jóhanna því að er ríkisstjórn hennar tók við völdum árið 2009 hafi Ísland riðað á barmi gjaldþrots, en ríkisstjórnin hafi einsett sér að verja velferðarkerfið þrátt fyrir að þurfa að skera mikið niður.

Það segir Jóhanna að hafi tekist vel og að hún trúi því að það hafi að hluta til verið vegna þess hversu stórt hlutverk konur höfðu í ríkisstjórn hennar, sem var sú fyrsta þar sem ráðherraliðið var skipað jafnmörgum konum og körlum.

Fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur, árið 2009.
Fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur, árið 2009. mbl.is/Ómar Óskarsson

Konur, að sögn Jóhönnu, eru jákvæðari fyrir uppbyggingu sterks velferðarkerfis, sem hafi verið nauðsynlegt á tímum efnahagskreppunnar. Þá segir Jóhanna að konur hafi einnig reynst vitrari en karlar er efnahagskreppan breiddi úr sér.

„Það voru eiginlega engar konur á meðal stjórnenda íslensku bankanna sem fóru í þrot árið 2008,“ skrifar Jóhanna og bendir á að það hafi verið bankar undir stjórn kvenna, á borð við Auði Capital, sem stóðu af sér storm á fjármálamörkuðum.

Í grein sinni fer Jóhanna vítt og breitt yfir svið jafnréttismála og minnist meðal annars á fæðingarorlof feðra og jafnlaunavottun sem mikilvæga áfanga sem hafi náðst hérlendis í þeim efnum.

Jóhanna segir að víða hafi áföngum sem þessum verið náð í jafnréttismálum og að mörg glerþök hafi verið brotin, en að enn sé þörf á að bæta í og full ástæða sé til þess, enda sýni reynsla Íslands að það að gefa konum aðkomu að ákvörðunum um viðskipti og stjórn samfélagsins til jafns við karla geti breytt heiminum til hins betra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert