Kominn til Gaza eftir 5 ára útlegð

Sveinn Rúnar Hauksson og Hosni Talal Botch hittust á ný. …
Sveinn Rúnar Hauksson og Hosni Talal Botch hittust á ný. Hosni var fyrsti maðurinn á Gaza til að fá íslenska gervifætur árið 2009. Ljósmynd/Sveinn Rúnar Hauksson

„Þörfin fyrir gervifætur á Gaza hefur stóraukist eftir skotárásir leyniskyttna Ísraelshers inn á Gaza, allt frá 30. mars síðastliðnum. Skotið hefur verið á mótmælendur, heilbrigðisstarfsfólk, börn og hvern sem er. Meira en 170 manns hafa verið drepnir af leyniskyttunum og fjöldi særðra nálgast 20 þúsund,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, læknir sem staddur er á Gaza. Tölurnar sem hann nefnir koma frá heilbrigðisráðuneytinu í Palestínu og Sameinuðu þjóðunum.

Íslenskir gervifætur til Gaza

Sveinn Rúnar hefur haft umsjón með verkefninu Íslenskir gervifætur til Gaza í samvinnu við gervilimastöðina á Gaza, ALPC (Artificial legs and polio center), frá því að það hófst árið 2009. Verkefnið er hugarsmíði Össurar Kristinssonar og framkvæmt í samvinnu við Félagið Ísland-Palestína og gengur út á að útvega særðum borgurum gervifætur og aðra útlimi svo þeir geti lifað eðlilegu lífi.

Össur fann upp leið til þess að framleiða gervilimi með töluvert fljótlegri hætti en áður eða á um það bil einni klukkustund í stað viku. 

Össur hefur stutt verkefnið af miklu örlæti alla tíð, að sögn Sveins Rúnars. 

En Sveinn Rúnar fór þó ekki einungis til Gaza til þess að flytja þangað efni til þess að smíða gervilimi heldur nýtti hann ferðina til að styrkja fleiri mikilvæg málefni eins samtökin AISHA sem eru styðja konur og börn sem eru í erfiðum aðstæðum. 

Meinaður inngangur á Gaza

Hernámsyfirvöld í Ísrael hafa meinað Sveini Rúnari inngöngu á Gaza síðastliðin 5 ár og vegna stríðsátaka á svæðum í kring hafa aðrar inngönguleiðir ekki verið færar. Fyrir viku fékk hann loks aftur leyfi til að fara inn á Gaza og tók hann með sér efni til að framleiða 20 sett af gervifótum. 

Það eru ekki bara sprengikúlur leyniskyttna sem valda aflimunum. Slys …
Það eru ekki bara sprengikúlur leyniskyttna sem valda aflimunum. Slys og sykursýki eru líka algeng orsök. Lyfjaskortur er mikill á Gaza. Ljósmynd/Sveinn Rúnar Hauksson

„Ég er búinn að vera hérna í nokkra daga og hef ekki komist yfir allt það sem er á dagskrá. Ég hef verið að kynna mér almennt ástand og heimsækja vini mína sem og fjölskyldur þeirra. Það vill einhvern veginn þannig til að nokkrir af mínum albestu vinum féllu frá meðan ég var í burtu, þar á meðal forstöðumaður ALPC,“ segir Sveinn Rúnar og bætir við:

„Tveimur dögum áður en ég kom voru leyniskyttur að skjóta á fólk og 45 manns særðust. Það var enginn drepinn þann dag en það var mikið verið að skjóta fæturna undan fólki og greinilegt að í langflestum tilvikum var verið að nota einhvers konar sprengikúlur sem eyðileggja útlimi þannig að læknar neyðast til að aflima fólk sem verður fyrir þessum skotum. Þetta er fólk á öllum aldri, börn, unglingar og fullorðnir þannig að það kom sér vel að við kæmum.“

Sveinn Rúnar segir ástandið á svæðinu hryllilegt, ekki síst eftir að Bandaríkjastjórn skar niður framlög til flóttamannahjálparinnar. Mengunin á svæðinu sé skelfilega mikil og komin í drykkjarvatn og í sjóinn. Þá segir hann atvinnuleysið vera um 60% og því fylgi bæði sálræn vandamál og fíkniefnavandamál. „Þetta land er varla talið byggilegt lengur að mati Sameinuðu þjóðanna,“ bætir hann við.

Styrkja konur og börn

Bókhaldari ALPC er ánægður með íslenskan gervifót.
Bókhaldari ALPC er ánægður með íslenskan gervifót. Ljósmynd/Sveinn Rúnar Hauksson

Frá árinu 2010 hefur Ísland-Palestína ásamt fleirum stutt við samtökin AISHA sem eru samtök fyrir konur og börn sem búa við slæmar aðstæður. Samtökin reka húsnæði og er fræðslusalurinn eftir Maríu Magnúsdóttur hjúkrunarfræðingi, sem féll nýverið frá, sem var helsti bakhjarl samtakanna.

„Það sem ég hef fengið að upplifa í dag er að vera á fundi með stórum hópi kvenna þar sem hver og ein sagði sína sögu og hvernig stuðningur okkar hefur hjálpað. Þetta eru allt konur sem hafa þurft að taka ábyrgð á sinni fjölskyldu vegna þess að eiginmenn þeirra hafa fallið frá eða eru af einhverjum ástæðum ófærir um að sjá fyrir sinni fjölskyldu,“ útskýrir Sveinn Rúnar í þann mund sem rafmagnið fór af hjá honum. „Þetta upplifir maður oft,“ bætir hann við

Þriðja verkefnið sem Sveinn Rúnar sinnir í ferðinni er að fara að skoða aðstæður í heilbrigðisþjónustunni og mun hann einnig ræða framhaldsmeðferð fyrir fíkla. Ísland-Palestína og utanríkisráðuneyti Íslands hafa styrkt heilsugæslustöðvar á svæðinu til kaupa á nauðsynlegustu lyfjunum en mikill lyfjaskortur er í Gaza.

„Ég var með fyrirlestur í báðum læknaskólunum hér fyrir 5 árum og ætla að ræða hvernig framhald meðferðar á fíklum er því það er æ stærra vandamál. Þegar ég kom fyrir 5 árum virtist eina leiðin vera sú að stinga mönnum í steininn en núna er komin deild á eina geðsjúkrahúsinu á Gaza,“ segir Sveinn Rúnar.

Fer aftur á Gaza í október

Sveinn Rúnar kemur heim til Íslands um helgina en stoppar stutt hér á landi því í október fer hann aftur til Gaza. Þá með 50 sett af gervifótum með aðstoð íslenskra kvenna úr samtökunum IWPS (International Women‘s Peace Service) sem eru alþjóðafriðarsamtök kvenna. Björk Vilhelmsdóttir hefur skipulagt þá ferð sjálfboðaliða sem mun aðstoða við að flytja gervifæturna til Palestínu.  

Borgarstjóri Betlehem sendi Sveini Rúnari bréf á fimmtudag þar sem hann dásamaði hjálparstarfið sem unnið hefur verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert