Peningar ráði of miklu í borgarskipulagi

Fjölmenni var á fundinum í Safnahúsinu í gær.
Fjölmenni var á fundinum í Safnahúsinu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Fundurinn var fjölsóttur og sýnir áhuga og jafnframt áhyggjur fólks af skipulagsmálum hjá Reykjavíkurborg,“ segir Ögmundur Jónsson, sem stóð fyrir opnum fundi um peningaæði í borgarskipulagi í Safnahúsinu í Reykjavík í gær og var hluti af fundaröð Ögmundar sem ber yfirskriftina Til róttækrar skoðunar.

Þau Gestur Ólafsson, Magnús Skúlason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigríður Kristjánsdóttir fluttu erindi á fundinum. „Í erindunum voru þessi mál sett í sögulegt samhengi og að auki horft til þess sem nú er að gerast í skipulagsmálum og margt af því er vægast sagt hrikalegt,“ segir Ögmundur.

Yfirgangur við Austurvöll og Víkurgarð

„Sjálfur hef ég tekið dæmi af útvarpsreitnum í Efstaleiti þar sem arðsemissjónarmið ein hafa ráðið ferðinni og svo náttúrulega af yfirganginum við Austurvöll og Víkurgarð þar sem verið er að byggja við Landsímahúsið í þágu hótelfjárfesta, þvert á almannavilja eins og kærur og skrif bera vott um,“ segir Ögmundur, og að framkvæmdum sé jafnvel haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist á meðan mál séu í kæruferli.

„Það er undarlegt að borgarfulltrúar eða Alþingi grípi ekki þar í taumana. En doðinn og sinnuleysið er fullkomið og þá einnig virðingarleysi gagnvart þeim sem hreyfa andmælum.“

Ögmundur segir að á fundinum hafi komið fram að dæmi af þessu tagi sé að finna miklu víðar. „Meinsemdin er sú að peningarnir ráða of miklu en almannahagur of litlu. Það segir síðan sitt að þegar efnt er til opinnar umræðu þá halda kjörnir fulltrúar sig fjarri. Fulltrúi Pírata á fundinum í gær var þar kærkomin en jafnframt eini borgarfulltrúinn að því er mér sýndist og því jafnframt undantekningin sem sannaði regluna um fílabeinsturn þessar skipulagsstjórnmála í borginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert