Varðhald á grundvelli almannahagsmuna

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur úrskurðaði fyrir helgi að karlmaður á fertugsaldri skyldi sæta gæsluvarðhaldi áfram meðan mál hans er til meðferðar fyrir Landsrétti, en hann var fyrr á þessu ári í héraðsdómi dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga þáverandi unnustu sinni á hrottafenginn hátt.

Hafði maðurinn áður hlotið dóm árið 2012 fyrir nauðgun og taldi Landsréttur málið núna ítrekunarbrot og því þætti nauðsynlegt, með vísun til almannahagsmuna, að maðurinn gengi ekki laus þangað til dómur fellur í Landsrétti.

Maðurinn var ákærður og dæmdur fyrir hrottafengna nauðgun á heimili þeirra í desember árið 2016. Þá var hann einnig sakaður um frelsissviptingu, en dómurinn taldi þann hluta ákærunnar vera ósannaðan.

Í málinu neitaði maðurinn sök og dró konan kæruna til baka. Lögreglan hélt þó rannsókn sinni áfram og fékk heimild til að hlera síma konunnar. Kon­an gaf þá skýr­ingu á að hafa dregið kær­una til baka tveim­ur dög­um eft­ir að hún leitaði til neyðar­mót­töku Land­spít­ala þar sem það væri „best fyr­ir hana og henn­ar fjöl­skyldu“.

Óskaði konan eftir að fá nýjan réttargæslumann, Svein Andra Sveinsson, og breytti hún framburði sínum í skýrslutöku hjá lögreglu og sagði rannsókn lögreglu með símahlerun í málinu „verra en nauðgun“ og „ógeðsleg hegðun“. 

Þrátt fyrir að konan hafi dregið framburð sinn til baka komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að maðurinn væri sekur. Var manninum í framhaldi af sakfellingu gert að afplána 630 daga eftirstöðvar reynslulausnar frá fimm ára dómi sem hann hlaut árið 2012. Afplánun þeirrar reynslulausnar átti að ljúka á fimmtudaginn, en ríkissaksóknari fór fram á gæsluvarðhald meðan beðið væri niðurstöðu hjá Landsrétti, en maðurinn áfrýjaði málinu þangað.

Héraðsdómur féllst á kröfu ríkissaksóknara um varðhald yfir manninum þangað til dómur væri fallinn, þrátt fyrir hegðunarvottorð og góða hegðun í fangelsinu síðan hann fór inn aftur. Landsréttur staðfesti þann úrskurð svo á fimmtudaginn og skal maðurinn sæta varðhaldi til föstudagsins 11. janúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert