Verður boðið starfið aftur ef uppsögnin reynist ólögmæt

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stjórnarmaður í Orkuveitu …
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er eðlilegt að hún vilji leita réttar síns í málinu,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, um uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar. Hún hyggst leita réttar síns vegna uppsagnarinnar.

Áslaug Thelma birti færslu á Facebook í morgun þar sem hún teng­ir upp­sögn sína við sam­töl og til­kynn­ing­ar henn­ar til starfs­manna­stjór­a ON um óviðeigandi fram­komu Bjarna Más Júlí­us­son­ar, þáver­andi framkvæmdastjóra ON. Bjarna var sagt upp störfum síðastliðinn miðvikudag vegna óviðeig­andi fram­komu gagn­vart sam­starfs­fólki. Áslaugu Thelmu var sagt upp tveimur dögum áður.

Verður boðið starfið aftur ef uppsögnin reynist ólögmæt

Hildur hefur óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum vegna framkomu fyrrverandi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, Bjarna Más Júlíussonar, gagnvart öðru starfsfólki. „Ég mun ekkert una sátt við uppsögn Áslaugar Thelmu fyrr en ég fæ það staðfest að hún hafi verið málefnaleg og lögmæt og ég er að bíða eftir svörum og skýringum á því,“ segir Hildur.

Hún segir það ekki útilokað að framkoman sem varð til þess að Bjarna Má var sagt upp störfum varpi nýju ljósi á uppsögn Áslaugar Thelmu. „Mér finnst ekkert annað en eðlilegt að við rýnum í uppsögn Áslaugar Thelmu með hliðsjón af þessu öllu. Ef að við komumst að því að henni var ekki sagt upp störfum af málefnalegum ástæðum er í mínum huga ekkert annað í stöðunni en að bjóða henni starfið aftur.“

Áslaug Thelma Einarsdóttir segist margoft hafa leitað til starfsmannastjóra ON …
Áslaug Thelma Einarsdóttir segist margoft hafa leitað til starfsmannastjóra ON vegna óviðeigandi framkomu Bjarna Más Júlíussonar sem var rekinn úr stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins í síðustu viku. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kom saman á aukafundi á föstudag vegna málsins þar sem Hildur lagði fram fyrirspurn varðandi uppsögn Áslaugar Thelmu. „Það fer í sinn eðlilega farveg innan samstæðunnar og við bíðum eftir svörum og ég mun ýta á eftir því að þau berist fljótt og vel,“ segir Hildur.

Stjórn Orkuveitunnar hefur ekki boðað til nýs fundar vegna málsins en Hildur býst við því að þegar frekari gögn hafa borist í tengslum við uppsögn Áslaugar Thelmu muni stjórnin koma saman á ný.

Forstjóri OR nýtur ekki vantrausts

Bryn­hild­ur Davíðsdótt­ir, stjórn­ar­formaður Orku­veitu Reykja­vík­ur, sagði í samtali við mbl.is eftir fund stjórnarinnar á föstudag að stjórn OR beri fullt traust til for­stjór­ans. Hildur segir að traustyfirlýsing sé ótímabær þar sem ýms­um spurn­ing­um er enn ósvarað og mál­inu því ekki lokið. „En hann nýtur ekki vantrausts,“ segir Hildur.

Meðal spurninga sem enn er ósvarað nefnir Hildur að henni finnst enn þá óljóst hvort forstjóri hafi gripið nægilega snemma inn í málin og vísar hún í orð Áslaugar sem lýsir því að hún hafi kvartað í lengri tíma yfir hegðun Bjarna Más. „Þannig mér finnst ansi ótímabært að lýsa yfir einhverju trausti þó að í því felist engin vantraustsyfirlýsing,“ segir Hildur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert