Segjum okkar sögu á okkar eigin forsendum

Hópur kvenna á milli tvítugs og þrítugs skipar ritstjórnina. Eydís …
Hópur kvenna á milli tvítugs og þrítugs skipar ritstjórnina. Eydís Blöndal er þriðja frá hægri. Ljósmynd/Eva Sigurðardóttir

Elinóra ritstýra auglýsti eftir þátttakendum á Twitter og við stukkum allar til. Þannig varð þessi hópur til og hann er sístækkandi,“ segir Eydís Blöndal, einn aðstandenda Flóru, nýs femínísks veftímarits sem hóf göngu sína í síðustu viku.

Vilja meiri fjölbreytni

Flóra er óháð femínískt veftímarit sem stofnað var í sumar. Fyrsta útgáfa Flóru samanstendur af níu greinum og einum myndaþætti og mun efnið birtast á vefsíðunni www.flora-utgafa.is, ein til tvær greinar á dag yfir vikutímabil. Á bak við Flóru stendur flokkur kvenna sem vilja vanda til verka í gerð fjölmiðlaefnis og kalla eftir meiri fjölbreytni í fjölmiðlum landsins, að því er fram kemur í kynningu á útgáfunni. Konur framkvæma útgáfu vefritsins, hanna það, forrita, myndskreyta, skrifa og hugsa.

Hægt að gera miklu betur

„Þó að við séum að kalla eftir auknu femínísku efni og bættu fjölmiðlaumhverfi er ekki þar með sagt að við séum sjálfar yfir gagnrýni hafnar. Ætlunarverk Flóru er þó einfalt: Við viljum benda á að það er hægt að gera svo miklu betur. Hættum að gefa okkur að kynin hafi ólíkan smekk, kyns síns vegna, og gerum fjölbreytt fjölmiðlaefni fyrir alla,“ segir í kynningu.

Elinóra Guðmundsdóttir er ritstýra Flóru en auk hennar skipa ritstjórnina þær Berglind Brá Jóhannsdóttir, Eva Sigurðardóttir, Eydís Blöndal, Sóla (Ásta Sólhildur) Þorsteinsdóttir og Steinunn Ólína Hafliðadóttir. Þá leggja pistlahöfundar útgáfunni einnig lið.

Tókum málin í okkar hendur

Eydís segir í samtali við Morgunblaðið að mikilvægt sé að rödd kvenna heyrist. „Hugmyndin var að segja okkar sögu á okkar forsendum. Okkur hefur þótt vanta rödd sem við getum samsamað okkur við í fjölmiðlum þannig að við tókum málið í okkar hendur,“ segir hún.

Í hópnum eru konur á milli tvítugs og þrítugs. „Það hefur svolítið borið á því í fjölmiðlum að þar birtist „kvennagreinar“ sem ýta undir hlutgervingu og því fögnum við ekki. Við viljum fjalla um hlutverk okkar í samfélaginu á okkar eigin forsendum.“

Sumar þeirra eiga börn og Eydís segir að það móti skrifin. „Það er mikilvægt að rödd mæðra heyrist líka. Þær eiga það til að einangrast inni á heimilinu og eru skildar út undan í samfélagsumræðunni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert