Athuga hvort uppræta þurfi skaðlega vinnustaðamenningu

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir að venju samkvæmt muni borgarráð ekki setja sig inn í einstaka starfsmannamál og muni því ekki hafa bein afskipti af uppsögnum hjá Orku náttúrunnar.

„Við hins vegar þurfum að fylgjast með því hvort verkferlum hafi verið framfylgt og hvort það þurfi að uppræta skaðlega vinnustaðamenningu, sérstaklega í anda #MeToo,“ segir Líf í samtali við mbl.is.

Í morg­un skrifaði Áslaug Thelma Ein­ars­dótt­ir, sem var sagt upp störf­um hjá ON fyr­ir viku, færslu á Face­book, þar sem kom fram að hún hefði margoft leitað til starfs­manna­stjóra ON vegna óviðeig­andi fram­komu Bjarna Más Júlí­us­son­ar sem var rek­inn úr stöðu fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tæk­is­ins í síðustu viku.

Líf vísar í eigendastefnu B-hluta fyrirtækja borgarinnar frá 2014. „Sem eigendur berum við ábyrgð á því að fyrirtækjum í eigu borgarinnar sé stýrt af myndarskap og eftirfylgni og að starfsandinn sé góður. Ef það eru brotalamir þá þurfum við að taka það aftur upp og athuga hvort það sé ekki hægt að laga það og að svona lagað gerist ekki í framtíðinni,“ segir Líf.

Þá segir hún að það sé mjög mikilvægt að borgarráð og eigendur séu upplýstir. Borgarráð hefur ekki komið saman frá því að fregnir bárust af uppsögn Bjarna Más en fundur fer fram í ráðinu á fimmtudag. 

Ákvörðun um mögulega aðkomu borgarráðs að uppsögnum hjá ON liggur ekki fyrir, en dagskrá borgarráðs verður afgreidd á morgun. „Við tökum þetta fyrir í fyrramálið, hvernig þessu verður háttað og hver aðkoma borgarráðs verður,“ segir Líf.  

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að ekki sé útilokað að málið verði til umræðu á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert