Vilja að Orkuveitan rannsaki málið

Stjórn FKA fjallaði um málið á fundi í dag og …
Stjórn FKA fjallaði um málið á fundi í dag og lýsir yfir vanþóknun á því hvernig hefur verið staðið að málinu innan Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfyrirtækis ON. Ljósmynd/FKA

„Það er algjörlega óviðunandi eftir alla þá umræðu sem orðið hefur í kjölfar #MeToo-byltingarinnar að ekki sé staðið faglega að málum vegna kynbundins ofbeldis og áreitni,“ segir í yfirlýsingu stjórnar FKA, félags kvenna í atvinnulífinu. Yfirlýsingin varðar uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur úr starfi sínu hjá Orku náttúrunnar (ON).

Stjórn FKA fjallaði um málið á fundi í dag og lýsir yfir vanþóknun á því hvernig hefur verið staðið að málinu innan Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfyrirtækis ON.

„Í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað síðustu daga skorar stjórn FKA á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að rannsaka aðkomu forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur að máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og fyrrverandi [framkvæmdastjóra] ON til hlítar,“ segir í yfirlýsingu FKA, en í yfirlýsingunni segir einnig að mikilvægt sé að kanna stöðu félagslegra og andlegra þátta meðal starfsfólks beggja fyrirtækjanna til að unnt sé að grípa til nauðsynlegra aðgerða innan þeirra.

Ætla að standa með Áslaugu Thelmu

Stjórn FKA segist vilja „standa upp“ fyrir þeim kjarki sem Áslaug Thelma Einarsdóttir hefur sýnt með því að samþykkja ekki að málið sé þaggað niður og í orðsendingu stjórnarinnar til fjölmiðla kemur fram að krafa um breytingar á viðhorfum í atvinnulífinu verði ekki gefin eftir af hálfu FKA.

Félagið á fulltrúa í aðgerðahóp velferðarráðuneytisins sem hefur það hlutverk að fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislegt og kynbundið áreiti og ofbeldi á vinnustöðum.

„Við ætlum að standa með Áslaugu Thelmu í þessu máli, ekki síst til að sýna öllum konum sem eru í sömu sporum að þær eru ekki einar,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fulltrúi stjórnar FKA í aðgerðahópnum og málefnum sem tengjast #MeToo.

Stjórn FKA vill hvetja alla þá sem telja vinnuumhverfi sitt vera óheilbrigt vegna kynbundinnar eða kynferðislegar áreitni að láta í sér heyra og benda á að ef viðkomandi treysti sér ekki til þess innan vinnustaðarins geti hann komið nafnlausri ábendingu til Vinnueftirlitsins, sem metur tilefni til rannsóknar á vinnustaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert