Gerði athugasemdir við allar síðurnar

Athugasemdirnar sneru m.a. að því að skýrari upplýsingar vantaði fyrir …
Athugasemdirnar sneru m.a. að því að skýrari upplýsingar vantaði fyrir neytendur um eiginleika þjónustunnar eða vörunnar. AFP

Neytendastofa tók þátt í samræmdri skoðun Evrópusambandsins (s.k. sweep) á vefsíðum fjarskiptafyrirtækja. Könnunin sneri m.a. að því hvort fram kæmu með nægilega skýrum hætti upplýsingar um þjónustuveitanda, vörur og þjónustu, verð og samningsskilmála á vefsíðunum. 

Neytendastofa skoðaði vefsíður hjá Vodafone, Símanum, Hringdu, Hringiðunni og Nova, og gerði athugasemdir við allar vefsíðurnar. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Þar segir, að athugasemdirnar hafi meðal annars snúið að því að skýrari upplýsingar vantaði fyrir neytendur um eiginleika þjónustunnar eða vörunnar. Einnig vantaði í sumum tilfellum upplýsingar um þjónustuveitanda, heildarverð, gildistíma samningsins. lágmarkstímabil samnings eða skilyrði fyrir uppsögn.

Þá vantaði í öllum tilvikum upplýsingar um framkvæmd og meðferð kvartana og lögbundin úrræði neytenda vegna galla á þjónustu.

„Þrátt fyrir að fyrirtækin hafi gert breytingar á upplýsingum sínum í kjölfar athugasemda Neytendastofu taldi stofnunin þau ekki hafa gert fullnægjandi lagfæringar og því hefur hún tekið ákvarðanir um þau atriði sem þurfti að gera nánari grein fyrir,“ segir á vef Neytendastofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert