Úttekt á málum Orkuveitu

Hús Orkuveitur Reykjavíkur
Hús Orkuveitur Reykjavíkur mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur óskað eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gerð verði úttekt á vinnustaðamenningu og tilteknum starfsmannamálum hjá samstæðunni. Beðið var um rannsóknina án samráðs við fulltrúa minnihlutans en Hildur Björnsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur betra að fá hlutlausan utanaðkomandi aðila til verksins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir því að fá upplýsingar um það hvaða upplýsingar hafi borist borgarstjóra.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, segir að upplýsingar hafi borist um starfsmenn Orkuveitunnar sem hafi leitað til borgarstjóra vegna þess að þeir hafi talið á sér brotið. Því hafi verið óskað eftir upplýsingum um þessi samskipti og hvernig brugðist hafi verið við. Vonast hann til að fá upplýsingar á borgarráðsfundi á fimmtudag.

Stjórn Orku náttúrunnar, dótturfélags OR, ákvað á miðvikudag að segja Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra félagsins, upp störfum vegna óviðeigandi framkomu gagnvart starfsfólki. Daginn eftir var Þórður Ásmundsson ráðinn tímabundið. Seint á föstudag fékk Orkuveitan upplýsingar um málefni tengd Þórði. Hann var þá sendur í leyfi og gegndi því framkvæmdastjórastarfinu aðeins í einn sólarhring. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá því í gærkvöldi að Þórður hefði verið sakaður um alvarleg kynferðisbrot. Það fékkst ekki staðfest hjá Orkuveitunni. Samkvæmt upplýsingum OR liggja ekki fyrir neinar kvartanir frá samstarfsfólki. Þórður er í leyfi og ákvörðun hefur ekki verið tekin um framhaldið.

Þá upplýsti Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála OR, að hann hefði verið áminntur formlega vegna óviðeigandi kynferðislegrar áreitni á árshátíð fyrirtækisins fyrir þremur árum.

Undirbúningur úttektar hafinn

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR, tilkynnti í gærkvöldi að undirbúningur að rannsókn innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á umræddum málefnum OR væri þegar hafinn. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hafði skömmu áður tilkynnt að hann hefði óskað eftir því að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan úttektin færi fram. Við þá skoðun mættu hans ákvarðanir ekki vera undanskildar. Ósk Bjarna verður tekin fyrir á stjórnarfundi á morgun.

Hildur Björnsdóttir sagði að með fullri virðingu fyrir innri endurskoðun borgarinnar gætu orðið hagsmunaárekstrar vegna þess að Reykjavíkurborg á meirihlutann í Orkuveitunni. Þess vegna væri betra að fá utanaðkomandi aðila.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert