Minnsta hækkun íbúðaverðs í sjö ár

Áfram hægir á verðhækkunum íbúða á höfuðborgarsvæðinu.
Áfram hægir á verðhækkunum íbúða á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,1% í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands og hefur nú hækkað um 4,1% undanfarna 12 mánuði.

Áfram hægir á verðhækkunum íbúða á höfuðborgarsvæðinu, en í júlí mældist árshækkun íbúðaverðs 5,2%. 12 mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs nú er sá minnsti í rúmlega sjö ár eða frá því í maí 2011, að því er kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Verð fjölbýlis var óbreytt milli mánaða í ágúst en sérbýli lækkaði í verði um 0,3%. Fjölbýli hefur hækkað um 3,2% í verði á undanförnu ári en sérbýli um 6,0%.

Kort/Íbúðalánasjóður

Að raunvirði hefur íbúðaverð aðeins hækkað um 1,4% undanfarna 12 mánuði ef vísitala íbúðaverðs er borin saman við vísitölu neysluverðs. Þróun raunverðs íbúða hefur nú breyst talsvert á skömmum tíma en í maí í fyrra mældist árshækkun íbúðaverðs að raunvirði 21,5%. Þrátt fyrir að hægt hafi á verðhækkunum er raunverð íbúða enn hátt í sögulegu samhengi eða um 4% hærra en þegar það var hæst í síðustu uppsveiflu árið 2007.

Kort/Íbúðalánasjóður

Fjöldi viðskipta á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu er með ágætu móti þó íbúðaverð hækki nú minna en áður. 728 kaupsamningum vegna íbúða var þinglýst í ágúst sem eru um 15% fleiri samningar en í júlí og 46% fleiri samningar en í ágúst í fyrra.

Undanfarna 12 mánuði, þ.e. frá september 2017 til ágúst 2018, var hins vegar nokkurn veginn jafn mörgum kaupsamningum þinglýst eins og síðustu 12 mánuði þar á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert