Árrisulum göngumönnum vísað frá Esjunni

Gönguleiðum upp Esjuna var lokað í morgun þegar verkfræðingar á …
Gönguleiðum upp Esjuna var lokað í morgun þegar verkfræðingar á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur rúlluðu niður nokkrum björgum við fjallið nærri toppi Þverfellshorns. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Nokkrir frískir göngumenn ætluðu aldeilis að byrja þennan vindasama miðvikudag af krafti og ganga upp Esjuna. Þegar þeir voru að leggja í hann klukkan sjö í morgun tók á móti þeim hópur verkfræðinga sem var í þann mund að fara að rúlla niður nokkrum björgum við fjallið nærri toppi Þverfellshorns.

Greint var frá því í gær að gönguleiðum upp Esjuna yrði lokað frá dögun og til klukkan níu. Skilaboðin virðast hins vegar ekki hafa náð til allra.

Helgi Gísla­son hjá Skóg­rækt­ar­fé­lagi Reykja­vík­ur segir í samtali við mbl.is að vel hafi gengið að rúlla björgunum niður og að opnað verði aftur fyrir gönguleiðir upp úr klukkan níu. Sjö verkfræðingar eru að störfum í fjallinu og nota þeir sérstök verkfæri til að losa björgin, sem sum eru mannhæðarhá. „Þeir nota langar stangir til að tryggja að þeir fari ekki sjálfir af stað,“ segir Helgi.

Vísa þurfti nokkrum göngumönnum frá líkt og fyrr segir, en Helgi segir að allir hafi tekið því vel og að hópurinn sem var mættur fyrstur í morgun hafi gert gott úr þessu öllu saman og ákveðið að ganga á Helgafellið í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert