Berst gegn framsali til Póllands

Rannsókn lögreglu á málinu er ein sú umfangsmesta sem hún …
Rannsókn lögreglu á málinu er ein sú umfangsmesta sem hún hefur ráðist í á skipulagðri glæpastarfsemi. mbl.is/Eggert

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að framselja meintan höfuðpaur í hinu svokallaða Euro Market-máli til Póllands.

Saksóknari í Póllandi óskaði eftir því að maðurinn yrði framseldur vegna rannsóknar á sakamáli sem í gangi er þar í landi, að því er kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Rannsókn lögreglu á málinu er ein sú umfangsmesta sem hún hefur ráðist í á skipulagðri glæpastarfsemi.

Stjórnvöld hérlendis samþykktu að formskilyrðum fyrir framsali væri fullnægt. Maðurinn hefur barist gegn framsalinu og fór málflutningur í málinu fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Maðurinn segist hafa búið hérlendis í áratug, eigi hér fjölskyldu og fyrirtæki og að tengsl hans séu meiri við Ísland en Pólland.

Verjandi mannsins segir að óheimilt sé að framselja mann ef sama mál og framselt er vegna sé til rannsóknar á Íslandi. Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins kemur fram að óskað hafi verið eftir framsali mannsins til Póllands vegna meintra fíkniefnaviðskipta hans þar í landi og að málin séu aðskilin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert